Vernd Breiðafjarðar

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 14:11:10 (1601)

[14:11]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Mörg er mannanna iðja, dettur manni fyrst í hug þegar maður sér frv. af þessu tagi sem heitir frumvarp til laga um vernd Breiðafjarðar. Maður spyr fyrst hvern á að vernda og fyrir hverju. Samkvæmt efnisinnihaldi á að vernda landið þegar fólkið er flutt í burtu og fyrir hvern eru menn þá að vernda landið sem enginn eða fáir búa á? Mér finnst eðlilegt að umhvrh. sé á kafi upp fyrir höfuð í verkefnum og samningu lagafrv. um að vernda land þar sem margt fólk býr og þar sem fólki fer mjög fjölgandi.
    Mér þætti ekki óeðlilegt að hæstv. umhvrh. væri með frv. um vernd Reykjavíkur eða vernd Kollafjarðar eða vernd Hafnarfjarðar því hvergi er meira jarðraskið eða skemmdirnar sem mennirnir vinna á umhverfi sínu en einmitt á þessu svæði. Það gera menn hins vegar ekki. Menn koma ekki fram með nein lagafrumvörp um að verja landið fyrir ágangi fólksins þar sem það er flest. Menn koma hins vegar fram með lagafrv. um að verja og vernda eyðilönd fyrir ágangi fólks sem er ekki þar.
    Þó að ég sé ekki með þessum orðum að gera hæstv. umhvrh. upp annað en það sem ég held að búi að baki frv. þessu, velvilji í garð Breiðafjarðar, finnst mér að menn séu ekki endilega á réttu spori í efnistökum sínum í umhverfisvernd og því hvar menn eiga að bera niður og hvað menn eiga að vernda. Mér finnst menn vera að sumu leyti á rangri slóð því ekki er mest hættan á að fordjarfa það land þar sem fáir búa og nær enginn dvelst um vetrartímann.
    Það hlýtur að vera mest aðkallandi að skilgreina hvernig við ætlum að fara með það land sem er fyrir mestum ágangi manna, véla og tækja sem mennirnir nota til þess að breyta umhverfi sínu sér í vil.
    Hvað skyldu menn vera búnir að eyðileggja mikið í þessu umhverfi af menningarsögulegum minjum? Hvað skyldu menn vera búnir að eyðileggja mikið það umhverfi sem er hér með byggingum, vegalagningu eða öðru slíku? En ekki bólar á neinni umræðu um að menn þurfi að líta á þessi mál, semja frv. til að vernda það land sem flestir vilja búa á.
    Þegar menn tala um vernd Breiðafjarðar skil ég það þannig að menn ætli að vernda svæðið með aðgerðum sem fái fólk til að búa á svæðinu. Það er vernd í mínum huga að koma í veg fyrir að fólk hætti að vilja búa á þeim svæðum. Ef svo fer fram sem horfir, eins og stefna núv. ríkisstjórnar hefur verið, þurfa menn ekki að bíða nema í áratug, þá getur þáv. umhvrh. lagt fram frv. um vernd Ísafjarðardjúps sem er að mestu leyti komið í eyði og er á fallanda fæti það sem eftir er. ( Umhvrh.: Hvað hefur þessi ríkisstjórn hrakið marga úr Breiðafirði?) Hún hefur örugglega ekki hrakið menn þangað heldur frekar þaðan ef eitthvað er. Mér finnst að hæstv. umhvrh. eigi gamanlaust að líta til þess að koma í veg fyrir skaða þar sem menn eru á degi hverjum að eyðileggja umhverfi sitt en eyða minni tíma í frumvarpssmíð af þessum toga nema þá ef það væru í því aðgerðir til þess að stuðla að því að fólk vilji eiga heima á þessum stöðum sem hann ætlaði að vernda. Í mínum huga er það ekki vernd að frysta tiltekið ástand, sem sé það ástand að fáir ef nokkrir búa á viðkomandi svæði, en það er raunverulegt efnisinntak þessa frv., að frysta tiltekið ástand, ekki að breyta því til einhvers betra horfs sem menn skilgreina heldur að frysta það --- í þágu hvers? spyr ég. Í þágu hvers? Hvers vegna á að fara að gera mönnum torvelt fyrir að taka upp búsetu á þessu svæði síðar meir ef menn vilja gera það? En það mun þessi löggjöf gera.
    Þó að ég vilji ekki leggjast alfarið gegn frv. af þessu tagi þá finnst mér inntakið vera meingallað og tel þörf á verulegri breytingu á því svo að ekki sé meira sagt. Það sem mér finnst að hefði mátt vera megininntakið í þessu efni eru rannsóknir. Það get ég skilið að sé nauðsynlegt og eðlilegt að menn ráðist í að rannsaka svæði út frá einhverjum tilteknum sjónarhóli sem menn gefa sér, menningarsögulegt gildi eða rannsaka lífríki eða eitthvað slíkt. Það ætti að vera meginatriði málsins að mínu viti að rannsaka svæðið. En mér finnst að það eigi ekki að vera meginatriðið að frysta slæmt ástand hvað varðar fólksfjölda á því svæði.
    Ég vil grípa niður í þessu frv. þar sem mér finnst ástæða til að fara nokkrum orðum um og spyrja hæstv. ráðherra um fáein atriði þar sem ég hef ekki fullkominn skilning á inntaki þess. Ég vil fyrst spyrja hvað átt er við með orðinu ,,lífríki`` í 1. gr. frv. Er það skilgreint með ákvæðum 2. gr., þ.e. það sem er ofan sjávar? Eða er átt við með lífríki líka það sem er neðan sjávar? Það er nauðsynlegt að það liggi fyrir ótvírætt hvað menn eiga við, því að lögin eiga að ná til skynsamlegrar nýtingar lífríkisins. Þá er eins gott að menn séu klárir á því hvað fellur undir orðið ,,lífríki`` ef það á að vera á valdi umhvrh. að ákveða nýtingu þess.
    Þá eru það reglugerðarákvæðin sem mér finnst ástæða til að fá frekari upplýsingar um hvernig eru hugsuð. Í 4. gr. er kveðið á um það að ráðherra setji reglugerð að fengnum tillögum Breiðafjarðarnefndar. Og ég spyr í fyrsta lagi: Þýðir það orðalag að í reglugerðinni verði aðeins það sem Breiðafjarðarnefnd leggur til og ráðherrar samþykkja eða getur ráðherra hafnað því sem nefndin leggur til og sett inn ný ákvæði sem nefndin hefur ekki lagt til? En orðalagið ,,að fengnum tillögum Breiðafjarðarnefndar`` hefur verið skilið í lagamáli á þann veg að það má einungis vera í reglugerðinni það sem í tillögunum er frá nefndinni. Og vitna ég til afgreiðslu á öðrum lögum á síðasta þingi til staðfestingar á skilningi þessa orðalags.
    Í öðru lagi spyr ég: Hvað þýðir að Breiðafjarðarnefndin eigi að hafa samráð við sveitarfélögin? Hvernig á það samráð að fara fram? Er það þannig að sveitarfélögin eiga að gera umsögn um einhver atriði sem nefndin hefur í smíðum hjá sér? Síðan gerir nefndin það við athugasemdina sem henni sýnist, tekur tillit til þeirra að öllu leyti, að hluta eða hafnar þeim. Er samráðið í raun og veru bara umsagnarákvæði? Þetta tel ég rétt að liggi alveg skýrt fyrir líka þannig að ekki valdi misskilningi.
    Þá spyr ég: Hvað telur hæstv. umhvrh. að hann geti sett inn í reglugerð samkvæmt 4. gr. frv.? Hvaða efnisatriði getur ráðherrann haft inni í reglugerðinni? Reglugerð er ævinlega sett með stoð í lögum eða á að vera þó að það vilji nú verða misbrestur á því og það þarf að vera að mínu viti skýrt í lögunum hvað það er í efnisatriðum laganna sem á að útfæra nánar með reglugerð.
    Í 5. gr. frv. eru talin upp nokkur atriði sem eigi að vera í reglugerðinni. Ég spyr þá: Er það tæmandi upptalning? Þ.e. þar á að kveða á um vernd lífríkisins, um skynsamlega nýtingu lífríkisins, í þriðja lagi um varnir gegn hvers konar mengun svæðis og í fjórða lagi um aðgang ferðamanna að tilteknum stöðum. Er þetta tæmandi upptalning á þeim efnisatriðum sem í reglugerðinni geta verið eða telur ráðherra að hann geti bætt við öðrum atriðum en þarna eru upp talin á grundvelli þá einhverra annarra ákvæða í frv.?
    Ég vil líka spyrja hann hvernig hann skilur ákvæðið um varnir gegn hvers konar mengun. Hvað þýðir það eða með öðrum orðum, hver er túlkun hans á orðinu mengun? Menn geta að mínu viti tekið þetta orð og látið það í raun og veru gilda nánast um allar athafnir manna og þar af leiðandi fært gildissvið laganna undir hvað sem er, hvort sem það er búskapur, sjávarútvegur eða eitthvað annað.
    Þá spyr ég um reglugerðarheimild til menntmrh. Í fyrsta lagi sömu spurningar og áðan var um þýðinguna á orðalaginu ,,að fengnum tillögum Breiðafjarðarnefndar`` og bæti við spurningu um hvað þýði: og að fenginni umsögn þjóðminjaráðs. Þýðir það einfaldlega að Breiðafjarðarnefnd hefur þá umsögn og gerir það við hana sem nefndinni sýnist eða er hún bundin af því að taka tillit til efnisatriða og ábendinga þjóðminjaráðs?
    Þá spyr ég eins og hv. þm. Pétur Bjarnason um vörsluáætlun sem er nokkuð þokukennt hugtak í mínum huga og ég sé ekki í skýringum með þessu frv. að sé skýrt með viðunandi hætti. En ég vil segja að mér þykir ekki mikil framför í því að það sem menn geta sjálfir ráðið nú skuli þeir hætta að ráða og umhvrh. ráða í staðinn. Auðvitað er með þessi ákvæði sem ráðherra ber þarna fyrir brjósti í lagatextanum sem eru öll bannákvæði í hugsun sinni, öll ákvæði um að takmarka mannlega umferð um svæði eða notkun þeirra. Þetta geta landeigendur gert í dag og mér er nokkuð hulið hvaða framför er fólgin í því að taka það vald af þeim og fela það umhvrh.
    Þá vil ég setja spurningar við ákvæði 6. gr. frv. um heimildir eða öllu heldur um að banna hvers konar mannvirkjagerð og jarðrask nema að fengnu samþykki Breiðafjarðarnefndar þar sem ekki eru fyrir samþykktar skipulagsáætlanir. Mér finnst þetta vera mikil spurning hvort ástæða er til að setja slíkt fortakslaust bannákvæði í lagatexta. Það þýðir að ef aðstæður í íslensku þjóðfélagi breytast þannig í framtíðinni að fólk vill fara að flytjast aftur og taka upp búsetu á þessu svæði eða á fastalandi við þetta svæði, þá er því torveldað það mjög vegna þess að þá er Alþingi búið að ákveða í raun að menn eigi ekkert að búa á þessu svæði, þetta eigi að verða einhver húsdýragarður fyrir höfuðborgarbúa.
    Þá vil ég líka gera athugasemdir við 7. gr., sem er væntanlega ávinningur heimamanna í frv., að ríkið ætli að láta peninga af hendi til að gera eitthvað sem mönnum finnst til bóta. Það er í fyrsta lagi aðeins heimildarákvæði. Það er engin vissa að menn fái það og kemur þar inn á það sem ég sagði áðan um að rannsóknir ættu að vera meginviðfangsefni málsins. Það er engin vissa fyrir því að það verði. Það er aðeins heimildarákvæði, heimilt að starfrækja náttúrurannsóknastöð. Það er engin skylda. Og í öðru lagi þegar ríkinu sýnist svo að nýta heimildarákvæðið þá er það bundið skilyrði um framlög heimamanna. Hvenær er það í lögum sem menn binda skilyrði um framlög ríkisins til einhverrar starfsemi hér á höfuðborgarsvæðinu, skilyrði um framlög frá Reykjavíkurborg eða Hafnarfjarðarkaupstað? Það væri fróðlegt að fá upptalningu á því hvort að finna sé í lögum um opinberar stofnanir eða starfsemi hjá hinu opinbera að það sé sett niður á höfuðborgarsvæðinu með skilyrðum um framlög sveitarfélaga hér á höfuðborgarsvæðinu. Það væri fróðlegt að umhvrh. upplýsti okkur um fordæmið fyrir þessu skilyrði.
    Þá vil ég spyrja hæstv. umhvrh. um ákvæði annarra laga og hvernig þau samrýmast þá þessum lögum eða hvernig eigi að framkvæma þau ef þetta frv. verður að lögum hvernig á að beita ákvæðum annarra laga eftir að þessi lög eru komin, en það er að finna í öðrum lögum ákvæði sem menn geta gripið til og nýtt sér til þess að ná fram sumu af því sem hér er lagt til.
    Þá spyr ég líka um heimildarákvæði í 2. mgr. 9. gr. þar sem ráðherra er fengin heimild til að beita dagsektum allt að 50 þús. kr. á dag ef menn vilja ekki gera það sem ráðherrann telur að þeir eigi að gera. Ég tel rétt að menn skoði þetta mjög vandlega í nefnd hvort yfir höfuð er þörf á að hafa ákvæði af þessu tagi í lögum því að mér er mjög til efs að það sé rétt að einstakir fagráðherrar hafi sektarvald af þessu tagi sem þeir geta gripið til ef menn lúta ekki vilja sem þeir setja fram og er byggður á túlkun ráðherrans á lögunum. Ég hef miklar efasemdir um að ákvæði af þessu tagi eigi yfir höfuð að vera í lögum.
    Virðulegur forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta frv. en mér finnst það vera undirlagt af sjónarmiðum sem grundvallast á því að núverandi ástand í byggðamálum sé eitthvað sem á að vera til frambúðar, byggt á sjónarmiðum þéttbýlisbúans hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann af góðsemd sinni og hjartagæsku ætlar að rétta litla manninum á Breiðafirði litla örvandi hönd.