Vernd Breiðafjarðar

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 14:37:19 (1606)


[14:37]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég tel það svona skyldu mína að halda ræðu í þessu máli, ég gerði það í fyrra, bæði til þess að útvíkka umræðuna dálítið og setja hana á örlítið annað plan hvað ( Umhvrh.: Hærra plan.) ýmis atriði varðar og gleðja vin minn, hæstv. umhvrh., með kannski skoðunum sem hann er ekki alfarið sammála.
    Nú vill svo til að ég hygg að við hæstv. umhvrh. séum að mörgu leyti sammála um að náttúruminjar, heilu glæsilegu svæðin á Íslandi sem hafa fóstrað og alið upp þessa þjóð og búa yfir miklum verðmætum sé til framtíðar horft, séu vernduð og séu nýtt o.s.frv. En okkur skilur einmitt að í leiðum. Ég held að Breiðafjörður sé eitthvert skemmtilegasta svæði á Íslandi og eigi fyrir sér mikla möguleika, bæði til þess að byggjast upp með nýjum hætti og taka við fólki á nýjan leik, bæði í kringum fjörðinn og kannski eyjarnar líka og við búumst við að það sé svo af öðrum ástæðum að vilji fólk fremur hafa þar sumarbúsetu, nýta hlunnindi og þannig taka þátt í því að efla og vernda þetta svæði. En það sem skilur okkur hæstv. umhvrh. að er fyrst og fremst stjórnunin, hvernig skuli ná þessum markmiðum fram.
    Hæstv. umhvrh. er eins og svo margir aðrir ráðherrar sem hafa sest að völdum á Íslandi, sem halda að þeir verði að eilífu og þeir skuli verða hreppstjóri og oddviti hvers einasta sérstaka sveitarfélags á Íslandi. Það skuli setja sérstök verndunarlög um þetta svæðið og hitt þar sem þeir og þeirra embættismenn fara með öll völdin. Og auðvitað er það svo þegar maður les þetta frv. sem hér er til umræðu þá eru menn að fjarlægja völdin frá fólkinu sem býr á svæðinu. Það er umhvrh. sem skal skipa stjórn, það er umhvrh. sem setur að fengnum tillögum reglur, það er umhvrh. sem setur reglugerð um hin og þessi víðtæku atriði sem varða þetta svæði.
    Ég er í engum vafa að þeir hugsuðu líkt af jafnmiklum eldmóði og hita til þjóðar sinnar, hinir látnu leiðtogar Sovétríkjanna. Ég bar dálitla virðingu fyrir Khrústsjov ( Umhvrh.: Geta ekki framsóknarmenn orðið . . .  ?) og bara örlitla virðingu fyrir Brezhnev og þeir hugsuðu áreiðanlega hlýtt til þjóðar sinnar. En þeir studdust við þetta fjarlæga stjórnunarkerfi þar sem allt skyldi koma að ofan, allt skyldi koma að sunnan eða ofan, allar ráðstafanir, öll ráð og þannig varð allt framtak heillar þjóðar deytt á löngum tíma. Þess vegna óttast ég það að þessi sérlög, sem við Íslendingar viljum á svo mörgum sviðum fara út í, muni valda því að fólkið, sem á í sér framtak, kemst ekki í gegnum pappírana, það kemst ekki í gegnum allar leyfisveitingarnar sem þarf að sækja um. Það veit að þetta er svo flókið og erfitt að það þýðir ekkert að tala við ráðuneytið fyrir utan hitt að ég geri mér grein fyrir því í vaxandi mæli að kverúlantar sem hafa allt aðra hugsun heldur en að trúa á fólkið, þeir trúa á að fólkið hvar sem það er að starfa eða vinna sé að spilla og eyða landi. Þeir hafa þess vegna löngun til þess að taka af því völdin, stöðva það, þeir hafa ekki trú

á því sem það er að gera og halda að þeir hafi úrræðin. Ég sé svona svæði sem þessir spekúlantar hafa ráðstafað og ráðið yfir. Þau hafa fallið í sinu og undir mosa og mannlífið hefur horfið af þeim svæðum. Þess vegna er það mikilvægt í mínum huga að hafa ein lög og eina reglu á Íslandi sem miðar að því að þjóðin búi við sömu löggjöfina hvar sem hún er.
    Ég hef ekkert á móti því að við tökum einstakar náttúruperlur og gerum úr þeim þjóðgarð á alveg sérstökum svæðum eins og Þingvelli, Skaftafell og fleiri slíka staði. En ég tek líka undir það að menn líti eftir umferð og skipuleggi ferðir manna o.s.frv. En ég sætti mig ekki við lög sem miða fyrst og fremst að því að láta þá hafa völdin á svæðunum sem eru svo langt í burtu eins og hér er stefnt að. Hvar eru hreppsnefndir þessara svæða í þessu máli? Hvar er sveitarstjórnarstigið þegar þetta kemur til umræðu hér í þinginu? Það minnist enginn á það? Umhvrh. þarf að fá tilnefningu einhverra manna vítt og breitt um fjörðinn til þess að skipa þá í einhverja yfirhreppsnefnd á öllu svæðinu þannig að ég óttast þetta.
    Ég sé líka þróun fyrir mér. Við höfum fylgst með þessu unga ráðuneyti, umhvrn., og höfum orðið vör við það í gömlu ráðuneytunum að þau sækjast eftir völdum. Embættismennirnir vilja ráða. Þeir vilja ná í ný úrræði fyrir aðra embættismenn til þess að ráða og kannski skaffa sér tekjur og þannig þenjast þessi bákn út. Þegar ég lít í fjárlagafrv. næsta árs sem nú liggur fyrir þinginu, þá sé ég sköpunarsögu umhvrn. sem er nú ekki margra ára og ekki margir menn sem hafa setið í því ráðuneyti. Hvað hefur verið að gerast í því? Ef ég fletti upp á bls. 203 sé ég það að kostnaður við umhvrn. er orðinn 676,7 millj. Að vísu er ýmislegt þar undir sem var til áður en alla þessa peninga þarf nú í umhvrn. Svo þegar ég fletti hér upp á löggjafarsamkomunni sjálfri sem menn telja mikilvægast að fækka þingmönnum og spara sérstaklega til þess að embættismennirnir hafi enn þá meira frelsi, þá kostar Alþingi Íslendinga örlítið meira en umhvrn. allt eða 714 millj. Þetta gerist á stuttum tíma og við verðum vör við þennan slag hér, að fleira skal undir þetta unga ráðuneyti. Heilu byggðarlögin skulu vera þessarar hreppsnefndar sem sitja í umhvrn. til að ráða þar öllum sköpuðum hlutum. Þó að ég taki undir þau markmið sem hér eru sett fram þá tel ég skynsamlegt að ná þeim með öðrum leiðum. Ég hefði t.d. talið að það hefði verið betra að skipa sendiherra sem iðulega hefði samband við umhvrn. úti á Breiðafirði. Það hefði getað verið að vetrinum Eysteinn Gíslason í Skáleyjum og svo hefðum við til þess að fylgjast enn betur með þessu getað haft þar líka sumarsendiherra þar sem Dagbjartur Einarsson í Grindavík flytur þangað á sumrin og lítur eftir náttúrunni og verndar hana. Það hefði kannski verið jafnmikill árangur af því fyrir hæstv. umhvrh. að þessir menn hefðu gerst svona sérstakir sendiherrar til þess að . . .  ( Gripið fram í: Kommúnistarnir líka?) Ja, það eru kommúnistar sjálfsagt á Breiðafirði, ég efast ekki um það. Þeir lifa. En ég er ekkert viss um að kommúnistarnir á Breiðafirði vilji þetta rússneska kerfi sem á að setja þar á. ( KHG: Örugglega ekki.) Örugglega ekki. Þeir vilja nefnilega frelsi fólksins og þeir hafa séð hvernig kommúnistaflokkur þeirra í Rússlandi fór að því hann virti ekki frelsi og athafnafrelsi fólksins í sínu landi. ( KHG: Þeir vilja ekki Sovét-Ísland.) Þeir vilja sannarlega ekki Sovét-Ísland.
    En þetta er, hæstv. umhvrh., mín góðlátlega ræða í dag, aðvörunarræða, klíptu ekki lífið með hendi þinni og dreptu það. Leyfðu fuglinum að fljúga og vera frjálsum á Breiðafirði eins og annars staðar. Sjáðu um að frelsið sé þar heima en ekki í ráðuneytinu sem hæstv. ráðherra stjórnar. Það vil ég leggja áherslu á í dag. Það held ég að sé svo mikilvægt um allt land.
    Ég get ekki tekið undir með hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að gera Flatey á Breiðafirði að þjóðgarði. Í mínum huga er Flatey þjóðgarður en Flatey á Breiðafirði nýtur þeirrar verndar að þar er fólk sem á þar hús og á þar eignir sem það varðveitir dag hvern og það eru bestu sendiherrarnir í þeirri eyju. Það þarf ekkert meira til. Svo þarf auðvitað í öllum landshlutum og á öllum svæðum að vera starfandi löggæsla sem sér um að ribbaldar komist ekki upp með að raska náttúruminjum eða valda spjöllum.
    Í umræðunni kom það fram sem kom mér ekkert á óvart, þ.e. þegar búið er að ræða þetta í 2--3 ár, þá kemur í ljós að við Vestur-Barðstrendinga hefur ekkert verið talað eða mér heyrðist það koma fram í ræðu hv. þm. Péturs Bjarnasonar. Við þá hefur ekkert verið rætt um málið. ( Gripið fram í: Breiðafjörður kemur þeim ekki við.) Ja, hæstv. umhvrh. telur að Breiðafjörður komi þeim ekkert við. Að vísu skal ég taka fram að mér heyrðist hann nú ætla að hafa samband þar vestur. En þetta sýnir vinnubrögðin.
    Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði í frv. Ég gerði það ítarlega í fyrra. Ég tek fram að afstaða mín er óbreytt. Ég tel þetta óheillaráð og ég er sannfærður um að þó að hæstv. umhvrh. væri trúverðugur hér þegar hann rak einn fingur til guðs og sagði: Það er ekki einn einasti maður á móti málinu. Auðvitað er það svo að það eru skiptar skoðanir um þetta atriði hjá fólkinu sem býr við Breiðafjörð og á Breiðafirði. Einstaklingar hafa haft samband við mig sem óttast að þetta kerfi verði of flókið þannig að það er sannarlega ekki rétt með farið. Hins vegar kann það að vera svo að stundum þegar fólk er að tapa tökum halda menn líka eins og í Sovét gamla að lausnin komi ofan frá. En hún kemur hvorki úr ráðuneytunum né frá guði almáttugum. Hún kemur frá fólki sem vill bjarga sér, trúir á landið og hefur frelsi til athafna undir réttlátum almennum lögum á Íslandi. Það er það kerfi sem við alþingismenn eigum að virða því að frá því að Alþingi var stofnað á Íslandi hefur það verið aðalatriðið í löggjafarhugsun á Íslandi.