Vernd Breiðafjarðar

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 14:52:17 (1607)


[14:52]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði satt að segja ekki hugsað mér að segja margt um þetta mál vegna þess að hér hefur svo margt viturlegt verið sagt að það er í raun og veru engu hægt að bæta þar við. En það vill svo til að mér er málið pínulítið skylt af ýmsum ástæðum og mig langar aðeins til að leggja orð í belg.
    Ég vil fyrst segja það að ég þakka umhvrn. og hæstv. umhvrh. fyrir greinargerð frv. Hún jaðrar við það að vera bókmenntir. Og það er afar sjaldgæft að með frumvörpum birtist svo fallegar greinargerðir eins og sú sem hér er á ferðinni. Þannig er að þegar menn skrifa svona greinargerðir þá ætti auðvitað að geta þess einhvers staðar í textanum hver er höfundur að þessari íslensku því hún er yfirleitt alveg sérlega falleg og auk þess mjög ítarleg vegna þess að hér er farið yfir menningarsöguna myndarlega. Farið er yfir búsetu við Breiðafjörð, að vísu í allt of stuttu máli, náttúrufar er rakið nokkuð og þar inni í dýralíf, farið vandlega yfir hluti sem maður hafði alls ekki áttað sig á eins og varðandi ákveðnar plöntutegundir sem hvergi er að finna nema á þessum slóðum og ég segi fyrir mitt leyti að ég hafði ekki áttað mig á. Það er allt of sjaldgæft að ráðuneytin vandi sig við greinargerðir. Satt að segja er það þannig að þegar greinargerðir koma frá ráðuneytunum láta menn yfirleitt nægja að greina frá aðdraganda málsins og síðan er farið yfir efni greinanna sem slíkra en hér er þetta miklu ítarlegra og ég tel það þakkarvert og ég tel að eigi að nefna það.
    Að öðru leyti verð ég því miður að segja að ég hef nokkrar athugasemdir við frv. sjálft frá almennu stjórnsýslusjónarmiði séð. Ég vil fyrst nefna að ég sé ekki hvernig það má vera að Breiðafjarðarnefnd hafi framkvæmdarvald en það hefur hún samkvæmt frv. Breiðafjarðarnefnd á skv. 6. gr. frv. að hafa alveg ótrúlega mikið vald miðað við það að skv. 3. gr. frv. eða 4. gr. er gert ráð fyrir því að nefndin sé til ráðgjafar eingöngu. En í 6. gr. er gert ráð fyrir því að nefndin hafi býsna mikið vald. Menn mega ekki skilja orð mín svo að ég sé almennt að fjalla um það að ekki megi leita ráða hjá nefndum né heldur að ég sé almennt að leggja það til að ráðherrar hafi meiri völd en gerðar eru tillögur um í frumvörpum af þessu tagi. Ég tel hins vegar að málið liggi þannig að ef á annað borð á að setja lög af þeim toga sem hér er gerð tillaga um verði ráðherrann að hafa valdið miðað við hefðir og venjur í íslenskri stjórnsýslu. Þess vegna finnst mér að sú nálgun sem fram kemur í 2. mgr. 6. gr. standist ekki. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þar sem ekki eru fyrir hendi samþykktar skipulagsáætlanir á því landsvæði sem um getur í 2. gr. er hvers konar mannvirkjagerð óheimil svo og jarðrask nema að fengnu samþykki Breiðafjarðarnefndar.``
    Með öðrum orðum verður nefndin að leggja blessun sína yfir það hvort um er að ræða mannvirkjagerð á svæðinu eða jarðrask af einhverju tagi og ég tel að nefndin sé ekki þannig skipuð að eðlilegt sé að fela henni þetta vald burt séð frá því hvað menn segja svo um málið að öðru leyti. Þess vegna hef ég talið að ef menn ætli sér að setja þessi lög ætti þarna að standa: ,, . . .  nema að fengnu samþykki umhverfisráðherra að fenginni umsögn Breiðafjarðarnefndar.`` Það væri í samræmi við venjur í íslenskri löggjöf. Það sama má segja um 3. mgr. 6. gr. þar sem segir:
    ,,Framkvæmdir sem nauðsynlegar og eðlilegar teljast til búskapar á lögbýlum eru leyfilegar nema spjöllum valdi á menningarsögulegum minjum, náttúruminjum eða lífríki að dómi Breiðafjarðarnefndar . . .  ``
    Þarna finnst mér að Breiðafjarðarnefnd þessi sé ekki aðeins orðin stjórnvald heldur sé hún líka orðinn faglegur matsaðili sem á að hafa vit á því hvort framkvæmdir af hvaða tagi sem þær eru hafi áhrif á, spilli eða fordjarfi á annan hátt því lífríki sem frv. er að öðru leyti ætlað að taka til. Þetta hefði ég viljað nefna hér, hæstv. forseti, og vekja athygli nefndarinnar, sem fjallar um málið, á því hvort ekki þarf að skoða aðeins betur, hvort þetta stenst svona. Ég held að það standist ekki. Annaðhvort verða menn að skipa nefndina öðruvísi og fá henni meira vald eða sleppa valdi hennar og gera hana að umsagnaraðila einvörðungu og fela ráðherranum einum valdið. Menn geta ekki gert hvort tveggja, bæði sleppt og haldið eins og mér sýnist að sé reynt að gera í frumvarpstextanum eins og hann lítur út.
    Í þriðja lagi vil ég koma að því að mér sýnist að sektarákvæði 2. mgr. 9. gr. séu óþörf. Ég sé engin rök fyrir þeim. Hér stendur með leyfi forseta: ,,Beita má dagsektum er renna í ríkissjóð, allt að 50 þús. kr., til að knýja menn til framkvæmda á ráðstöfunum sem þeim er skylt að hlutast til um samkvæmt lögum þessum og reglugerðum eða láta af atferli sem er ólögmætt.`` Ég átta mig ekki á því nákvæmlega hvaða atriði það eru sem þarna gætu hugsanlega orðið til þess að ráðherra teldi nauðsynlegt að knýja menn til að framkvæma og beita ella dagsektum. Hvað er það sem hæstv. ráðherra eða ríkisstjórnin er þar með í huga? Að það þurfi að beita menn dagsektum til þess að framkvæma hvað? Til að friða fugla? Til að friða náttúruminjar? Til að friða menningarsögulegar minjar? Eða hvað? Hvað eru menn nákvæmlega með í huga? Ég sé það ekki eftir þeim textum sem ég hef fyrir framan mig.
    Í fjórða lagi, hæstv. forseti, ætla ég aðeins að inna hæstv. ráðherra eftir því og biðja menn um að velta fyrir sér hvernig hugsa menn sér sambýlið við önnur lög og aðrar reglugerðir? Nú er það þannig að lög um fuglafriðun eru auðvitað framkvæmd m.a. með tilteknum reglugerðum sem m.a. ná að verulegu leyti og kannski eiginlega alveg eingöngu til þess svæðis sem hér er um að ræða. Hér er t.d. reglugerð um friðun arnarins sem við köllum í Breiðafirði reglugerð um friðun arnarinnar af því að við vitum að þetta er kvenkyn en ekki karlkyn, þessi fugl, en aðrir landsmenn fyrir misskilning hafa þetta yfirleitt karlkyn og ég hef það til að þingheimur skilji mig að öðru leyti.

    Spurningin er þá sú: Verður reglugerð um friðun arnarinnar sett á grundvelli laganna um fuglafriðun eða þessara laga eða hvort tveggja? Ég vil sem sagt spyrja hæstv. ráðherra að því: Hvernig sér hann þetta fyrir sér? Hann þarf ekkert að svara því núna, hann má út af fyrir sig svara því í nefnd, hvernig sér ráðherrann fyrir sér sambýli þessara laga hér og framkvæmda þeirra við önnur lög sem gilda um sama svæði.
    Ég vil að lokum segja það, hæstv. forseti, að ég tel að það sé eðlilegt að umhvrh. og umhvrn. velti því fyrir sér hvernig er hægt að setja lög um friðun eða vernd Breiðafjarðar. Ég tel að það sé eðlilegt að menn velti því fyrir sér. Það er hins vegar mjög vandasamt, sérstaklega vegna þess að ákvarðanir um vernd Breiðafjarðar, hvað svo sem menn vilja vernda þar, stangast á við eitt af grundvallaratriðum stjórnarskrárinnar í sumum þáttum, þ.e. ákvæði stjórnarskrárinnar um eignarrétt og forgang eignarréttarins. Og í raun og veru er ekki reynt, enda vonlaust, í þessu frv. að hrófla við þessum grundvallarrétti stjórnarskrárinnar, þ.e. eignarréttinum að því er varðar þetta svæði, Breiðafjarðarsvæðið. Ég tel þess vegna að það hefði alveg eins komið til greina að velta því fyrir sér að fara þá leið sem hv. 1. þm. Vesturl. nefndi hér áðan, þ.e. þróa málið ekki út frá friðun Breiðafjarðarins sem heildar heldur að þróa málið út frá því að Flatey verði þjóðgarður og að þar verði náttúrurannsóknastöð sem verði um leið ásamt þjóðgarðinum hjartað í þeirri verndun og þeirri friðun sem menn vilja í raun og veru ná fram. Ég vil koma þessari hugmynd að, hæstv. forseti, vegna þess að ég tel að það eigi að velta henni alvarlega fyrir sér. Ég tel að þetta sé skynsamleg hugmynd um Flatey og mætti auðvitað hugsa sér að það væri ekki eingöngu heimaeyjan heldur líka næstu eyjar eins og Hafnarey og Stagley og e.t.v. fleiri eyjar, þó að það væru ekki allar lendur Flateyjar því að það yrði of mikið, en það mætti hugsa sér að þetta yrði miðjan eða hjartað í verndun Breiðafjarðar og þar verði sett upp eða starfrækt náttúrurannsóknastöð.
    Þá ætla ég að segja það að lokum, hæstv. forseti, að mér finnst að menn eigi mjög alvarlega að velta því þá fyrir sér ef við ætlum að gera þetta á annað borð að lögum eða taka á þessu máli af alvöru, þá mætti kannski byrja á því atriði sem nefnt er sem heimildarákvæði í 7. gr. frv., þ.e. að stofna fyrst þessa náttúrurannsóknastöð með aðild ríkisins og hún verði grunnurinn sem þetta verði unnið út frá og þá láti menn á það reyna núna við afgreiðslu fjárlaganna fyrir árið 1995 hvort menn eru tilbúnir til þess að byrja þarna. Ef menn eru tilbúnir til þess, þá er eitthvað að marka þetta stjfrv. sem hér liggur fyrir frá ríkisstjórninni allri en ekki aðeins hæstv. umhvrh. Það er sjálfsagt að halda þannig á málum að á það verði látið reyna að það verði kannað hvort meiri hluti Alþingis vill fallast á tillögur eða hugmyndir um að það væri þegar í stað byrjað á þessum rannsóknum, sem þarna er gert ráð fyrir, á grundvelli gildandi laga, það þarf engin ný lög í þeim efnum, þ.e. á grundvelli laganna um Náttúrufræðistofnun og náttúrurannsóknir ef ég man rétt hvað þau heita.
    Í frv. og greinargerð þess er mjög ítarlega farið yfir menningarsögulegar minjar og þar er sagt frá því að þar þurfi að varðveita margt. Þarna séu gamlir matjurtagarðar, fornir torfgarðar, grjótgarðar, nátthagar, naustruddar varir, bryggjur, bátakvíar, sjóvarnargarðar, legufæri, fiskhjallar, skothús, æðarbyrgi, útsýnisturnar, kúagötur, réttir, stekkar og sjávarfallavirkjun. Tóftir af híbýlum og útihúsum af óvenju fjölbreyttum toga, íbúðarhús, fjós, hlöður, fjárhús, íshús, bræðsluhús, verbúðir, smíðahús, dúnhús, bátaskýli, bænhús, klaustur, yfirsetukofar, hænsnakofar, brunnhús og útsýnisturn. Og auðvitað þurfa menn að ná utan um þetta og reyna að vernda þetta svo sem kostur er og ekki síst t.d. hænsnakofana því ég hygg að það hafi aldrei í sögunni verið nefnt áður í frumvarpsgreinargerðum á Íslandi að menn ætli sér að vernda hænsnakofa og er kominn tími til og eðlilegt að aðdáendur Björns í Sauðlauksdal skuli átta sig á þessu fyrstir manna hér í þessari stofu. ( Umhvrh.: Þú verður að átta þig á því hvað ráðherrann er vel upp alinn.) Auk þess er ráðherrann vel upp alinn að parti, meðan hann var hjá mér.
    Hitt er aftur annað mál að stundum hefur farið illa fyrir göfugum áformum í þessum efnum eins og segir hér og má segja að það sé sorglegasta setning í greinargerðinni, með leyfi forseta:
    ,,Meðal annars var friðlýst klausturrúst í Flatey sem á að hafa verið sýnileg um 1840 en er hún horfin.`` Þetta er auðvitað hættan, hæstv. forseti, að það takist ekki að varðveita yfirsetukofa, hænsnahús, brunnhús, íshús né aðrar tóftir vegna þess að menn ná ekki utan um verkið þannig að hænsnahúsin týnist sem væri þó sýnu minni skaði en að klaustrinu í Flatey sem hefur því miður týnst.