Vernd Breiðafjarðar

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 15:22:45 (1609)


[15:22]
     Pétur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Það eru fyrst og fremst nokkur atriði sem ég vildi taka á frekar. Því miður var ég kallaður frá og náði ekki útskýringu hæstv. umhvrh. á nokkrum atriðum en fæ það skýrt nánar. Það er aðeins varðandi það sem kom fram í umræðunum, spurning hvað

á að vernda og í þágu hvers. Ég vil taka undir það sem hv. 5. þm. Vestf. sagði í ræðu sinni, að sjálfsögðu á að vernda svæði til að fá fólk til að búa þar. En ég lít svo á að verndun Breiðafjarðar sé liður í því að endurreisa þar byggð með því að vernda þær náttúruminjar sem eru þar. Þrátt fyrir að fáir búi þar nú þá munum við njóta þeirra og það mun skapast atvinna t.d. af ferðamennsku og vonandi í framhaldi af því mun sú atvinna styrkja fólk til þess að taka upp búskap og þar með hafa af þessu hefðbundnar nytjar. Og það sem mestu máli skiptir að þessi lög verði ekki til þess að hefta hefðbundnar nytjar eða búsetu í Breiðafjarðareyjum.
    Ég vil ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni að það er nauðsynlegt að þessi mál verði á valdi heimamanna. Hæstv. umhvrh. hefur lýst því yfir við mig að hann sjái í sjálfu sér ekkert á móti því að Vestur-Barðstrendingar komi þarna til áhrifa. Ég fagna því vissulega og ég treysti því að við þá verði rætt um þessi mál, hvort sem þeir fá setu í nefndinni sem ég teldi eðlilegt en alla vega að við þá verði rætt og haft samráð við þá hvernig með þessi mál verður farið í framtíðinni þar sem þarna er um að ræða svæði á þeirra landi.