Vernd Breiðafjarðar

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 15:27:06 (1611)


[15:27]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins bæta við það sem ég hef áður sagt um málið og kannski fyrst og fremst vegna þess að mér fannst hæstv. ráðherra svara þeim spurningum mjög lítið sem ég beindi til hans og sakna þess að fá ekki svör við þeim. Mér finnst að hann hafi að mestu leyti sniðgengið spurningarnar og vil ganga eftir svörum sem lúta að því hvernig ber að skilja grundvallaratriði í frv. Þar á ég við fyrir það fyrsta skilgreiningu á reglugerðarvaldinu. Það er ákveðinn skilningur í dag á orðalagi því sem er í 4. gr. frv. að umhvrh. setji að fengnum tillögum Breiðafjarðarnefndar. Það þýðir að það sem ráðherra getur gert er að samþykkja eða hafna tillögum, hann geti ekki komið með nýjar. Ef það er meiningin þá er ljóst alla vega hvernig menn ætla að hafa það en mér heyrist ráðherra í því litla sem hann vék að því að svara mínum spurningum meina annað, að hann vildi hafa valdið til þess að breyta og koma inn með ný efnisatriði jafnvel þótt að ekki væri vilji fyrir því hjá umræddri nefnd.
    Ég geri svo sem ekki mikið með það á hvorn veginn menn hafa lagatúlkunina en hún verður þó að vera á annan hvorn veginn, það er a.m.k. ljóst. Menn geta ekki haft uppi tvenns konar skilning á þessu eða breytilega framkvæmd. Almennt er ég þeirrar skoðunar að því minna vald sem ráðherrar hafa þeim mun betra er það. Ef eitthvað er hallast ég að því að takmarka vald ráðherra við þann skilning sem ég nefndi fyrr um 4. gr.
    Ráðherrann gat um það núna síðast að það væri tilgangurinn að styrkja byggðina við Breiðafjörð með því að byggja upp ferðamannaþjónustu sem aftur skapaði störf o.s.frv. Þá verð ég að segja að það var ekki það sem ég las út úr framsöguræðunni með frv. og það er ekki það sem ég les út úr texta frv. Menn verða þá að endursemja frv. til samræmis við þennan skilning. En ég vil taka það fram að þessi skilningur er mér meira að skapi en það sem áður hafði fram komið í umræðunni frá hæstv. umhvrh.
    Þó finnst mér ástæða til að benda honum á, af því að hann vakti athygli á því sjálfur, að ferðamönnum hefur fjölgað mjög mikið þarna þrátt fyrir að lög af þessu tagi væru ekki í gildi. Lögin sem hann ætlar að setja eru ekki forsenda þess að menn sinni ferðamannaþjónustu. Hún hefur komið til af sjálfu sér má segja, vegna náttúrunnar þarna og þess að fólk hefur áhuga á að skoða hana. Það hefur orðið þrátt fyrir að ekki væru lög í gildi og mér finnst andi laganna vera sá að takmarka aðgang ferðamanna að tilteknum stöðum eftir mati ráðherra á hverjum tíma. Mér finnst að í lögunum séu menn að reisa upp girðingar af því að þeim þykir orðið of mikið um ferðamenn. Það er ekki það sem hæstv. ráðherra sagði. Það er ekki til þess að stuðla að því að styrkja byggðina. Þetta sjónarmið sem við sjáum í lögunum er miklu frekar til þess að stöðva vaxtarbroddinn og birtist m.a. í því að menn ætla sér að taka vald af sveitarstjórnunum sem þær hafa í dag í skipulags- og byggingarlögum og fela það umhvrh. Svo segir umhvrh. að sveitarstjórnirnar biðji um það sjálfar að þetta vald sé tekið af þeim. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að koma hér upp og staðfesta að það sé rétt að sveitarstjórnirnar sem í hlut eiga hafi beðið um að af þeim væri tekið það vald sem þær hafa í skipulags- og byggingarmálum og það falið Breiðafjarðarnefnd og umhvrh.
    Ég á bágt með að trúa að það sé skoðun hæstv. umhvrh. og heimamanna að umhvrh. suður í Reykjavík viti miklu betur og sé dómbærari á það hverjir megi byggja hús og koma af stað atvinnurekstri á þessu svæði en sveitarstjórnirnar sjálfar. Ég tel að þær hafi þetta vald og séu fyllilega dómbærar á þessa hluti og geti beitt því af skynsemi. Ég hef ekki fengið nein rök sem sannfæra mig um að sveitarstjórnirnar séu ekki þess bærar að valda því hlutverki sínu þannig að náttúran bíði ekki skaða af. Menn verða þá að koma fram með það sjónarmið að sveitarstjórnunum sé ekki treystandi fyrir að takmarka og skipuleggja umgengni við náttúruna að svo miklu leyti sem það er á þeirra valdi. 6. gr. frv. er mér því ákaflega mikill þyrnir í augum svo að ekki sé meira sagt.
    Mér líst hins vegar ákaflega vel á þá hugmynd sem hv. 9. þm. Reykv. varpaði fram, að byrja á því að koma á fót rannsóknastöð á Breiðafirði og byggja síðan málið út frá því. Með því sýndi ríkisvaldið að því væri einhver alvara með því að það vilji rannsaka náttúruna svo vel sem hægt er og það vilji styrkja byggðina. Það er einmitt veikasti hlutinn í þessu frv. að ríkisvaldið lofaði engu í þá veru heldur setur það í heimildarákvæði að starfrækja megi slíka náttúrurannsóknastöð og skilyrðir hana framlögum frá heimamönnum á móti. Ég spyr: Hvað eru heimamenn í þessu tilviki? Eru það sveitarstjórnirnar sem verða þá að láta af hendi fé jafnmikið því sem ríkisvaldinu þóknast að reiða fram til að styrkja byggðina að sögn hæstv. umhvrh. eða eru það landeigendur eða einhverjir aðrir heimamenn? Þetta er alveg óskilgreint. Hér stendur bara heimamenn.
    Ég vil ítreka spurningu mína til hæstv. umhvrh.: Hvaða opinberar stofnanir hér á höfuðborgarsvæðinu eru starfræktar með því skilyrði að heimamenn leggi til jafnhátt framlag ríkinu til að reka þær? Ég bið hæstv. umhvrh. að lista þær upp eða telja á fingrum annarrar handar hvaða opinberar stofnanir eru hér starfræktar með því skilyrði. Ef mönnum er einhver alvara með því að gera hvort tveggja í senn, að vernda landið og umhverfið og styrkja byggðina, þá verða menn að gera betur en fram kemur í þessu frv. Þá verða menn að gera betur og þá verða menn að gera miklu betur því menn verða að gerbreyta þessu frv. til að koma þeim viðhorfum til skila og í framkvæmd sem hæstv. umhvrh. lýsti í seinni ræðu sinni. Það er því miður ekki nóg að hæstv. umhvrh. segi þessi orð í einum ræðuparti. Þessi vilji verður að skila sér í lagasetningunni og hann verður að skila sér í fjárlögunum. Að öðrum kosti eru menn einfaldlega að setja lög til að takmarka forræði heimamanna yfir eigin náttúru og færa valdið yfir henni í umhvrn. Þó að það sé að mörgu leyti þarft ráðuneyti þá er ég ekki mjög duglegur við það að styðja menn í því að byggja upp við Faxaflóa enn öflugri stjórnsýslu og draga hana úr höndum manna utan af landi, það litla sem þar er enn eftir í málum sem menn geta ráðið til lykta að einhverju leyti sjálfir. Ég er ekki tilbúinn til að veikja það litla sem eftir er í stjórnsýslu úti í héruðunum enn frekar en nú er eins og lagt er til í þessu frv.