Vernd Breiðafjarðar

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 15:42:48 (1613)


[15:42]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er gott að hæstv. ráðherra hefur svarað því t.d. hvort upptalning í 5. gr. sé tæmandi eða ekki um efnisatriði sem megi vera í reglugerð. Ég vil segja vegna svars hans að telji hann sig hafa heimild til að bæta við efnisatriðum og setja í reglugerð umfram það sem er í 5. gr. frv. þá verður það að byggjast á ákvæðum laganna. Það efnisatriði sem hann hyggst bæta við verður þá að vera á grundvelli einhvers lagaákvæðis og ég sé ekki hvaða lagaákvæði það ætti að vera.
    Ég vil benda ráðherranum á að ákvæði sem takmarka forræði heimamanna á málum sem þeir hafa nú þegar sjálfir er t.d. að finna í 6. gr. þar sem hvers konar mannvirkjagerð er óheimil við tilteknar aðstæður nema með samþykki Breiðafjarðarnefndar. Þetta er í dag fullkomlega á valdi sveitarstjórnar að afgreiða hverju sinni og ég átta mig ekki á því hvers vegna menn treysta ekki sveitarstjórnum til þess að fara áfram með það ákvörðunarvald.
    Enn fremur er eitt af þeim atriðum sem á að vera í reglugerð og á valdi ráðherra að takmarka aðgang ferðamanna að tilteknum stöðum. Þetta er í dag á valdi landeiganda hver svo sem hann er, hvort sem það er sveitarfélagið, ríkið eða einhver annar. Nú ætlar ráðherra að fá sér vald til að geta takmarkað umferð manna á landi sem ríkið á ekki. Ég spyr: Hefur ráðherra einhverja ástæðu til að ætla að hann þurfi að hafa vald yfir landi sem sveitarfélögin eiga til að takmarka umferð ferðamanna um það land, svo dæmi sé tekið?