Sameining Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 15:48:31 (1615)


[15:48]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Þetta frv. gefur tilefni til þess að ræða í stuttu máli málefni bændastéttarinnar. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þau, en finnst eðlilegt að segja hér nokkur orð.
    Íslensk bændastétt hefur á undanförnum árum gengið í gegnum mikið þrautatímabil og ekki hefur verið þrengt viðlíka að nokkurri annarri stétt í landinu á undanförnum árum. Ef við rifjum söguna lítillega upp, þá er kannski rétt að byrja á því að segja frá að bændur framleiddu of mikið fyrir innanlandsmarkað. Það var mikil verðbólga í landinu og framleiðslukostnaðurinn hækkaði ár frá ári og örar en það sem fékkst fyrir vörurnar sem fluttar voru út. Hæstv. fyrrv. landbrh., Ingólfur Jónsson, beitti sér fyrir því um 1960 að tryggja það að alltaf væru til nægar landbúnaðarvörur í landinu, að allt að 10% af framleiðslunni mætti flytja út og skyldi það vera útflutningsbætt. Þetta reyndist torvelt og mjög dýrt að síðustu og það var farið að grípa til framleiðslutakmarkana. En því miður reyndust þessar framleiðslutakmarkanir ranglátar. Það var einungis ein kjöttegund kvótasett, þ.e. dilkakjötið. Aðrar kjöttegundir bjuggu ekki við neinar hömlur. Mjólkin var að vísu kvótasett en það er tiltölulega auðvelt að breyta umframmjólk í nautakjöt með því að gefa kálfum mjólkina.
    Ég gat á sínum tíma ekki stutt búvörulögin vegna þess að ég þóttist sjá hrun í sveitum landsins í kjölfar búvörulaganna. Sá niðurskurður sem þar var ákveðinn gat ekki annað en orðið ákaflega sársaukafullur og þeir sem veikast stæðu hlytu að lenda í miklum nauðum í framhaldinu. Ég gat heldur ekki stutt búvörusamninginn á sínum tíma. Það var fyrirsjáanlegt að það yrði ekki staðið við hann og sú hefur raunin orðið á og síðan voru náttúrlega afurðastöðvarnar settar í hengingaról þar sem umboðssölukerfið var aflagt og þeim var skipað að greiða bændum fyrir ákveðinn tíma. Þar að auki sá ég það fyrir að beingreiðslukerfið mundi mælast illa fyrir með þjóðinni.
    Því miður hafa nýbúgreinar ekki orðið það hjálpræði sem menn voru að vona upp úr 1980. Loðdýrabúskapurinn reyndist allt of dýr í stofnkostnaði. Fóðurstöðvarnar voru líka byggðar af of miklum stórhug og fóðrið var of dýrt. Lífdýrin voru of dýr og svo þegar skinnaverð hrundi á erlendum mörkuðum sátu bændur eftir í skuldasúpunni. Sauðfjárbændur hafa líka verið að éta upp eignir sínar á undanförnum árum. Jarðirnar hafa verið gerðar verðlitlar. Verðmætin í landbúnaðinum eru fyrst og fremst fólgin nú orðið í framleiðsluréttindum, þ.e. í óáþreifanlegum verðmætum og það er mikill galli á allri þessari kvótastningu að verðmætin eru orðin óáþreifanleg, þ.e. bæði í landbúnaðinum og eins í sjávarútveginum. Það eru ekki skipin, það eru ekki atvinnutækin sem fyrst og fremst eru verðmæti heldur er það rétturinn til þess að veiða. Þetta er alveg hliðstætt í landbúnaðinum. Þeir sem vilja hefja búskap nú til dags verða venjulega að byrja á því að kaupa sér réttinn til þess að stunda atvinnuna. Hvernig mundi mönnum líka það ef þeir yrðu t.d. að kaupa störf hjá hinu opinbera? Það væri kannski lækning á erfiðri stöðu ríkissjóðs eða hluti af lækningu að fara að selja störf í þágu hins opinbera. Það tókst að sníða mjólkurframleiðsluna að mestu leyti að innanlandsmarkaðnum en hún hefur samt átt í miklum erfiðleikum. Gæðamati mjólkur hefur verið þannig háttað að þar er beinlínis um vísvitandi framleiðslutakmarkanir að ræða. Það er afskrifuð mjólk úr kúm í hundraðatali og það virkar auðvitað til framleiðslutakmarkana. Kúabúin hafa líka verið skert og mikill samdráttur orðið í mjólkurframleiðslunni. Hafi bændur viljað auka við sig, þá hafa þeir orðið að kaupa framleiðslurétt á okurverði. Þetta hefur að vísu gert nokkrum bændum kleift að hætta og ganga frá jörðum en kúabændurnir sem eftir standa bæta við skuldir sínar. Sauðfjárbændur hafa orðið fyrir óbærilegri skerðingu. Bóndi sem hafði meðalbú, 400 ærgildi við upphaf búvörusamningsins, má í haust setja á 260 ær. Tekjuskerðingin er tilsvarandi eða raunar meiri því að skerðingin kemur fyrst og fremst niður á launalið bóndans.
    Ég hef í höndum niðurstöðu úr búreikningum 65 sauðfjárbúa og ég tek það fram að búreikningabúin eru yfirleitt betur rekin heldur en hin, en þessi 65 sauðfjárbú sem eru 250--350 ærgilda bú hafa launagreiðslugetu árið 1993 upp á 727 þús. kr., þ.e. 727 þús. kr. eru meðalárstekjur fjölskyldu sauðfjárbænda. Að sjálfsögðu er það ekki fullt starf að sinna um svo lítið bú, en menn hlaupa nú ekki í uppgripatekjur annars staðar nema í fáum tilfellum og í sveitum landsins er orðið afar mikið dulið atvinnuleysi. Íslenskir bændur eru skattlagðir til Atvinnuleysistryggingasjóðs án þess að hafa öðlast eðlilegan rétt til bóta úr sjóðnum. Hann er þeim hér um bil lokaður og það blasir við að ef ekki verður að gert þá verður auðn í mörgum sveitum landsins. Það er alveg tómt mál að vera að tala um byggðastefnu ef sauðfjárræktin er látin hrynja vegna þess að hún er undirstaða að verulegum hluta búsetu í dreifbýlinu.
    Nú vill það svo til að með brotthvarfi verðbólgunnar er útflutningur dilkakjöts aftur að verða raunhæfur kostur. Búnaðarfélag Íslands undir forustu hv. 2. þm. Suðurl., Jóns Helgasonar, hefur unnið mjög gott starf varðandi markaðsöflun fyrir vistvænar landbúnaðarafurðir og kynningu á þeim hugmyndum. Ég nefni þar til óþreytandi baráttumann fyrir markaðssetningu vistvænna landbúnaðarafurða, Baldvin Jónsson. En það stendur á fjármagni til markaðssetningar en eina leiðin til þess að bjarga sauðfjárræktinni og þar með búsetu í stórum hluta landsins er að leyfa bændum að framleiða. Þeir kunna að framleiða, þeir eiga ræktun, land og byggingar. Innanlandsmarkaðurinn er hins vegar of lítill til þess að taka við framleiðslugetunni og það er engin leið skynsamlegri að mínum dómi heldur en að hefja markvissan útflutning í nokkrum mæli. Það gerist hins vegar ekki nema með aðstoð hins opinbera í byrjun og ég tel að það sé fullkomlega réttlætanlegt að verja fé til markaðsöflunar og útflutningsbóta um sinn. Ég tel hins vegar að við megum alls ekki fara inn í hið gamla far með útflutningsbæturnar. Ég held að ef eða þegar þær verða teknar upp þá eigi að miða þær við prósentu af söluverðinu fremur heldur en ákveðna upphæð miðað við magn. Það yrði svipa á seljendur að reyna að ná sem mestu verði fyrir vöruna.
    Það er fleira sem sækir að bændastéttinni. Það vofir yfir verulegur innflutningur hefðbundinna landbúnaðarvara. Hagsmunir landbúnaðarins hafa algerlega verið bornir fyrir borð bæði í EES-samningnum og þá sérstaklega í GATT-samningnum og ríkisstjórnin hefur ekki staðið á rétti landbúnaðarins og beinlínis fórnað hagsmunum landbúnaðarins fyrir önnur markmið. Hæstv. landbrh. hefur, eins og við vitum, þráfaldlega orðið að lúta í lægra haldi fyrir hæstv. utanrrh. þegar landbúnaðarmál hafa verið til meðferðar og það er allt mikil sorgarsaga og hæstv. landbrh. hefur sýnt ótrúlegt langlundargeð að láta hæstv. utanrrh. komast upp með sínar aðgerðir.
    Nú hefur núv. ríkisstjórn skert framlög ríkisins til landbúnaðarmála meira en nokkurs annars málaflokks. Það eru sjálfsagt orðnir 4--5 milljarðar á valdatíma núv. ríkisstjórnar sem framlög til landbúnaðarins hafa verið skert.
    Það er ekki nema eðlilegt í slíkri stöðu að bændur taki skipulagsmál og félagsmál sín til gaumgæfilegrar athugunar. Skipulagsmál eða þróun skipulagsmála landbúnaðarins er sorgarsaga að vissu leyti. Búnaðarfélagið var og er raunar enn merk ríkisstofnun sem sá um faglega þjónustu við landbúnaðinn en Búnaðarfélag Íslands kemur ekkert að kjarabaráttu. Bændur stofnuðu með sér stéttarfélag, þ.e. Stéttarsamband bænda, og það starfaði með blóma um alllangt árabil. En þegar blása fór á móti þá molnaði utan úr Stéttarsambandinu og búgreinafélög voru stofnuð. Máttinn dró við þetta úr Stéttarsambandinu án þess að búgreinafélögin öðluðust þrótt eða slagkraft sem nauðsynlegur hefði verið. Ástandið er orðið algjörlega óviðunandi, bændur hafa ákveðið að óska eftir sameiningu þessara tveggja félagasamtaka, Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambandsins, og það hefur farið fram almenn atkvæðagreiðsla meðal bænda og þeir samþykktu þessa sameiningu með miklum meiri hluta atkvæða.

    Ég tel að það sé rétt að gera þessa skipulagsbreytingu þó að í mínum huga séu nokkrar efasemdir um ákveðna þætti. Ég óttast t.d. að framhaldið verði það að ríkisvaldið kippi að sér hendinni með fjárframlög og leiðbeiningaþjónustunni verði í framtíðinni velt yfir á herðar bænda. Ég bind miklar vonir við hinn nýja félagsskap og ég vona að þar veljist til forustu menn sem hafa metnað fyrir hönd bændastéttarinnar og djörfung til þess að standa á rétti hennar. Bændum veitir sannarlega ekki af í hinni þröngu stöðu sem þeir eru í nú.