Sameining Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 16:03:44 (1616)


[16:03]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það eru þrjú atriði einkum. Það er í fyrsta lagi að hv. þm. endurtekur það sem hann hefur áður sagt að sú ríkisstjórn sem nú situr hafi sofið á verðinum í samningunum um hið Evrópska efnahagssvæði. Nú veit hv. þm. betur, hann veit ofurvel að það var síðasta ríkisstjórn en ekki þessi ríkisstjórn sem tók ákvörðun um það að fulltrúar íslenska ríkisins mættu ekki þegar fjallað var um landbúnaðarmálin í sambandi við samningana um hið Evrópska efnahagssvæði og öllu var í gadda slegið í þeim efnum þegar stjórnarskiptin urðu í lok aprílmánaðar 1991. Þannig að þegar hann finnur að þessum hlutum finnur hann sjálfan sig fyrir. Um ekkert slíkt var að ræða í sambandi við GATT-samninga eins og hv. þm. veit.
    Í öðru lagi vil ég taka það fram að sá niðurskurður sem orðið hefur á fjárframlögum sem veit að bændastéttinni er í samræmi við þann búvörusamning sem síðasta ríkisstjórn stóð fyrir og ber alla ábyrgð á.
    Í þriðja lagi vil ég segja að það er vitaskuld rétt hjá hv. þm. að sauðfjárbændur hafa mjög þrönga stöðu nú. Neysla hefur dregist saman innan lands og það er líka rétt hjá hv. þm. að það var ekki að neinum öruggum útflutningsmörkuðum að ganga eftir að útflutningsbæturnar voru felldar niður. Sá aðili sem hafði farið með útflutning á landbúnaðarvörum og þegið háar greiðslur úr ríkissjóði í því sambandi, Samband íslenskra samvinnufélaga, tók við greiðslunum en aflaði ekki heiðarlegra og góðra markaða erlendis fyrir þá peninga sem þannig voru greiddir úr almannasjóðum. Bændur súpa nú seyðið af því. Auðvitað rökstyður það nauðsyn þess að markaðsleit og markaðsöflun erlendis sé tekin upp á nýjum forsendum.