Útflutningur hrossa

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 16:23:47 (1623)


[16:23]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt að fram komi að ég hafði samband við Bjørn Vesth, landbúnaðarráðherra Danmerkur, á fundi landbúnaðarráðherra nú á þessu sumri og hann tók þessi mál upp innan Evrópusambandsins og í framhaldi af því höfðum við í landbrn. samband við utanrrn. um að fylgja því erindi eftir. Það hefur farið fram hjá mér að búið er að dreifa svari utanrrh. vegna fyrirspurnar Elínar R. Líndal en það er öldungis ljóst að landbrn. mun fylgja erindinu eftir. Ég átta mig ekki alveg á hvað felst í þessum orðum hér: ,,Jafnframt gæti slík krafa kallar á gagnkröfur á sviði landbúnaðar.`` Ég hef ekki um neinar slíkar gagnkröfur heyrt og verður fróðlegt að fá um þær upplýsingar en auðvitað er ég ekki að tala um hnífakaup í myrkri. Auðvitað vil ég fá að sjá hvað býr á bak við þessi orð í svari utanrrh. og ég endurtek það sem ég sagði. Ég tók þetta mál upp við Bjørn Vesth sem fylgdi málinu eftir innan Evrópusambandsins og það hefði ég að sjálfsögðu ekki gert nema ég hefði ætlað að fylgja því eftir. Ég mun þess vegna þegar í stað hafa samband við utanrrn. og biðja um skýringar á þessu svari og ætlast til þess að þessu máli sé fylgt fast eftir.