Vegalög

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 16:30:34 (1627)

[16:30]
     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt á þskj. 196 lítið frv. til laga um breytingu á vegalögum sem gengur út á það að inn í vegalög verði tekin ákvæði um hjólreiðastíga. Þannig háttar til að í vegalögum eru taldar upp alls konar brautir og alls konar stígar af ýmsu tagi en hins vegar ekki stígar fyrir reiðhjólaumferð. Í frv. er gert ráð fyrir því að á eftir orðinu ,,skógræktarsvæða`` í niðurlagi 1. mgr. 16. gr. vegalaga komi: vegi sem sérstaklega eru afmarkaðir fyrir umferð reiðhjóla.
    Í grg. segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Notkun reiðhjóla hefur farið vaxandi hér á landi á undanförnum árum. Hafa bæjarfélög brugðist við því með því að leggja sérstakar brautir fyrir umferð reiðhjóla. Þannig hefur orðið til nær samfellt net reiðhjólastíga hér á þéttbýlissvæðinu á suðvesturhorni landsins.
    Þessi mál hafa ekki verið flutt inn á vettvang Alþingis áður. Hér er lögð fram tillaga um að vegir, afmarkaðir fyrir reiðhjól, verði teknir inn í vegalög sem væri fyrsta skrefið. Í framhaldi af því þyrfti svo að verða til samfellt net reiðhjólastíga á stærri svæðum. Vonandi verður þessi tillaga til að vekja umræður sem síðan leiða til ákvarðana á Alþingi í þessum efnum.``
    Ég reikna með því, hæstv. forseti, að það sé út af fyrir sig ágæt samstaða um að eðlilegt sé að þetta ákvæði komi inn í vegalög. Í því felst í sjálfu sér engin binding fyrir Vegasjóð en í því felst viss stefnumörkun, með því væri verið að viðurkenna reiðhjólin sem hluta af hinum eðlilegum samgöngutækjum landsmanna.
    Um þessi mál hefur verið fjallað víða í sveitarstjórnum, m.a. í borgarstjórn Reykjavíkur og sömuleiðis í sveitarstjórnum víða í landinu eins og í bæjarstjórn Egilsstaða og sjálfsagt víðar. Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 12. apríl 1994 var gerð eftirfarandi bókun, með leyfi forseta:
    ,,Lagt fram bréf nefndar sem falið var að gera tillögur til úrbóta fyrir hjólareiðamenn í Reykjavík, dagsett 29. mars 1994, þar sem gerð er grein fyrir tillögum nefndarinnar. Þær fjalla um aðgerðir í því skyni að greiða fyrir hjólaumferð og stuðla að aukinni notkun hjóla sem samgöngutækis. Borgarráð samþykkir að framkvæma eins fljótt og kostur er þær tillögur nefndarinnar sem samræmast gildandi skipulagi og fjárhagsáætlun borgarinnar. Að öðru leyti er tillögunum vísað til athugunar við endurskoðun aðalskipulags.``
    Í framhaldi af þessari samþykkt borgarráðs frá í vetur þá hefur verið fjallað um málið í borgarráði nýlega en áður en ég kem að því vil ég greina frá því að borgarstjórn skipaði 4. jan. 1994 nefnd sem í sátu Katrín Fjeldsted, Vilhjálmur Vilhjálmsson og Þór Jakobsson og kölluð var hjólanefnd. Hún gerði tillögur um að búið yrði til stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar innan þriggja ára og á næstu þremur árum verði sett upp sérstök umferðarljós fyrir hjólreiðafólk. Síðan segir í áliti nefndarinnar, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin leggur til að við endurskoðun á samþykktum umferðarnefndar Reykjavíkur verði lögð meiri áhersla á ábyrgð nefndarinnar varðandi umferð hjólareiðamanna. Bendir nefndin í því sambandi á fyrirmynd að samþykkt fyrir umferðarnefndir í sveitarfélögum útgefin af Sambandi ísl. sveitarfélaga og Umferðarráði 1988 en í 6. gr. samþykktarinnar segir: Umferðarnefnd kannar sérstaklega möguleika á að auka öryggi hjólreiðamanna, svo sem skiptingu gangstíga og með lagningu sérstakra hjólreiðaleiða.``
    Hér er með öðrum orðum vitnað til þess að Samband ísl. sveitarfélaga hefur þegar gefið út sérstakar leiðbeiningar í þessu efni. Það að taka reiðhjól inn sem þátt í samgöngumálum bæjanna hefur þannig þegar verið viðurkennt, ekki aðeins af einstökum bæjum heldur einnig af Sambandi ísl. sveitarfélaga. Ég tel að það sé mikilvægt innlegg að nefna það hér.
    Það er einnig mikilvægt að láta það koma fram að fyrir nokkrum mánuðum, þ.e. snemma á þessu ári, voru stofnuð samtök 35 borga í Evrópu undir nafninu ,,Car Free Cities Club``. Þar er Reykjavík aðili sem er nokkuð merkilegt. Það er kannski rétt að láta þess getið að það var samstaða um það í borgarstjórn Reykjavíkur að koma þessu máli þannig fyrir og þetta var reyndar afgreitt í tíð fyrrv. meiri hluta.
    Þar er gert ráð fyrir því að skapa net borga sem munu vinna að því að draga úr notkun einkabílsins í borgum með ýmsum ráðum og Kaupmannahöfn er að sjálfsögðu í forsvari fyrir þessum vinnuhópi þar sem hann takmarkast við Evrópu en annars ætti það að vera Bejing sem er göfugasta hjólreiðaborg í heimi eins og þeir þekkja sem hafa a.m.k. séð myndir þaðan, ég tala nú ekki um þá sem hafa komið þar.
    Síðan segir í áliti þessarar sérstöku hjólanefndar Reykjavíkurborgar: ,,Nefndin vill að lokum mæla með því að borgaryfirvöld stuðli að aukinni notkun hjóla sem samgöngutækis með því að stofnanir Reykjavíkurborgar eigi hjól sem starfsmenn þeirra geti notað þegar þeir fara í stuttar erindagjörðir.``
    Þetta er nokkuð athyglisvert en ég hef ekki beitt samböndum mínum við borgarstjórn Reykjavíkur til að kanna hversu þessu hefur verið fylgt eftir en mun gera það fljótlega í framhaldi af þessum málum.
    Af því að Reykjavík gerðist aðili að þessum hópi sem heitir ,,Car Free Cities Club`` þá gerðist það að sent var bréf til Reykjavíkurborgar þar sem spurt var: Hvað eruð þið að gera fyrir hjólreiðamenn?
    Snemma á þessu ári svöruðu starfsmenn borgarskipulags. Þar kemur fram að það er satt að segja heldur fátæklegt sem hefur verið gert en er þó allt í áttina. Þar kemur það t.d. fram að 3--4% af umferð í borginni eru ekki með einkabílum eða almenningsvögnum. Það kemur hins vegar fram að um 470 km eru til af göngustígum og reiðhjólastígum í Reykjavík en þeir eru ekki greindir í sundur enn þá. Síðan er rétt að það komi fram að í samþykkt sem gerð var í borgarráði fyrir nokkrum dögum segir, með leyfi forseta: ,,Hafa þarf samráð við grannsveitarfélög Reykjavíkur til að tryggja að reiðhjólaleiðir milli sveitarfélaga tengist.``
    Þar með er ég kominn að efni þessa frv. Með öðrum orðum er bersýnilegt að það verður um að ræða vaxandi lagningu og notkun reiðhjólastíga á næstu árum. Í fyrsta lagi á þéttbýlissvæðinu en síðan mun það smátt og smátt ná yfir stærra svæði. Það eru þess vegna rök til þess að við brjótum það blað í þessari virðulegu stofnun að reiðhjól verði viðurkennd sem hluti af hinum almennu samgöngutækjum landsmanna með því að taka ákvæði um reiðhjólastíga inn í vegáætlun og út á það gengur þetta litla frv., hæstv. forseti.