Bráðabirgðasamkomulag eftir að EFTA-ríki hafa gerst aðilar að Evrópusambandinu

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 16:38:36 (1628)

[16:38]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um samning um bráðabirgðasamkomulag um lausn mála á því tímabili sem lifir eftir að tiltekin EFTA-ríki hafa gerst aðilar að Evrópusambandinu uns þau mál sem nú eru fyrir eftirlitsstofnun og EFTA-dómstól fá lausn.
    Samningi þessum er ætlað að leysa þann vanda sem skapast á þessu millibilsástandi eftir inngöngu tiltekinna EFTA-ríkja í Evrópusambandið varðandi óafgreidd mál sem þá liggja fyrir hjá EFTA-dómstólnum og eftirlitsstofnun EFTA. Samkomulagið kveður á um að með hvaða hætti eigi að ljúka þessum málum. Samningurinn er í eðli sínu tímabundinn þótt ekki sé unnt að tiltaka upp á dagsetningu um gildistíma hans. Hann fjallar um valdsvið eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins eftir aðild tiltekinna EFTA-ríkja að Evrópusambandi varðandi málsatvik sem eiga sér stað eða áttu uppruna sinn fyrir þann tíma. Hann fjallar um á hvern hátt framkvæmdastjórn Evrópusambandsins yfirtekur mál sem nú falla undir eftirlitsstofnun EFTA en snúa að þeim EFTA-ríkjum sem verða aðilar að Evrópusambandinu. Og hann fjallar um á hvern hátt EFTA-dómstóllinn lýkur málum þar sem málsatvik er leiddu til málssóknar áttu sér stað áður en til aðildar tiltekinna EFTA-ríkja að Evrópusambandinu kom. EFTA-dómstólnum er ætlað að úrskurða í öllum slíkum málum innan sex mánaða frá aðild EFTA-ríkjanna.
    Millibilsástandið sem þetta bráðabirgðasamkomulag tekur til er þá að ætla má sex mánuðir. Þó segir hér að ríkisstjórnir aðildarríkja þessa samnings megi ef samhljóða samkomulag verður um það framlengja þetta tímabil um allt að sex mánuði í viðbót þótt það þyki heldur ólíklegt að á það þurfi að reyna.
    Ekkert í þessum samningi eða samningnum um eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólinn kemur í veg fyrir að ríki sem ekki gerist aðili að Evrópusambandi ákveði að eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstóllinn starfi áfram við úrlausn málsatvika sem eiga sér stað eftir aðild EFTA-ríkja með þeirri skipan og með því starfsfólki sem viðkomandi EFTA-ríki telur viðeigandi. Ef svo fer að tvö eða fleiri ríki gerast ekki aðilar að Evrópusambandinu úr hópi umsóknarríkja skal taka slíka ákvörðun með samhljóða samþykki ríkisstjórna þessara ríkja þegar niðurstöður liggja fyrir.
    Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.