Aðgerðir til stuðnings íbúum Austur-Tímor

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 16:54:20 (1631)


[16:54]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kom í máli málshefjanda að íslensk stjórnvöld hafa ítrekað lýst áhyggjum á ástandi mannréttindamála á Austur-Tímor. Ísland hefur verið eitt örfárra ríkja sem hafa notað tækifærið á alþjóðlegum vettvangi til þess að vekja athygli á ástandinu þar. Einungis Írland auk nokkurra ríkja portúgölskumælandi þjóða hafa séð ástæðu til þess að vekja athygli á mannréttindabrotunum á Tímor í ræðum sínum.
    Tillaga um vernd mannréttinda á Austur-Tímor hefur hins vegar ekki náð fram að ganga á allsherjarþinginu. Ísland hefur stutt umfjöllun um ástand mannréttinda á Austur-Tímor í mannréttindanefndinni í Genf, en að því er varðar tillöguflutning þá er mikilvægt að hafa í huga að ef slíkar tillögur eru lagðar fram þykir mjög mikilvægt að það sé tryggt fyrir fram að þær hljóti samþykki vegna þess að höfnun slíkra tillagna yrði túlkuð sem áfall fyrir málstað viðkomandi þjóðar og ávinningur eða stuðningur, a.m.k. óbeinn, við framferði indónesískra stjórnvalda.
    Það er rétt sem fram kom að fastafulltrúi Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna beindi í ræðu sem hann flutti fyrir hönd utanrrh. gagnrýni að stjórnvöldum í Indónesíu fyrir þessi alvarlegu mannréttindabrot. Fastafulltrúi Indónesíu óskaði eftir sérstökum fundi með fastafulltrúa Íslands í New York og lýsti þar orðrétt megnri óánægju yfirvalda í Jakarta með þessa yfirlýsingu Íslands. Þessi fulltrúi indónesískra stjórnvalda fékk þau svör að íslensk stjórnvöld bæru hag íbúa Austur-Tímor fyrir brjósti og tilvísun til mannréttinda á Austur-Tímor í ræðu fyrir hönd Íslands endurspeglaði þann áhuga sem bæði ríkisstjórn og Alþingi hefðu á þeim málum, einkum vegna þess hversu fáir hefðu orðið til þess að vekja á þeim athygli. Hann tók einnig fram að mannréttindasamtökin Amnesty International hefðu gagnrýnt áframhaldandi aftökur og fangelsanir án dóms og laga auk aðgerða til að hefta tjáningarfrelsi og til að útrýma menningu íbúanna. Annað nýlegt áhyggjuefni væri að indónesísk stjórnvöld hefðu lokað skrifstofum þriggja viðurkenndra blaða og tímarita á Austur-Tímor.
    Þess má geta að fastafulltrúi Portúgals hefur hins vegar þakkað Íslandi fyrir stuðning við þessa mannréttindabaráttu. Þess má einnig geta að í nýlegri skýrslu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um Austur-Tímor er tekið fram að ögn skárra andrúmsloft ríki nú í viðræðum Indónesa og Portúgala um framtíð eyjaskeggja þótt enn beri mikið í milli. Sem dæmi um örstutt skref fram á við má nefna að þann 1. okt. sl. náðist samkomulag í London milli samninganefndar leiðtoga á Austur-Tímor og leiðtoga frá Austur-Tímor sem búa á erlendri grund. Mikilvægt er að þessar viðræður haldi áfram í góðri trú. Umræðu um málefni Austur-Tímor var frestað á allsherjarþinginu til ársins 1995, en íslensk stjórnvöld hafa hins vegar talið og munu fylgja því eftir að rétt sé að halda þessu máli vakandi.