Aðgerðir til stuðnings íbúum Austur-Tímor

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 16:58:14 (1632)


[16:58]
     Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir að taka þátt í þessari umræðu og fyrir þær upplýsingar sem fram komu í hans máli. Ég held einmitt að það sem hann sagði um viðbrögð Indónesíustjórnar sýni að það er tekið eftir því þegar mál af þessu tagi eru tekin upp í umræðum. Það er tekið eftir því þegar Ísland á í hlut og reyndar fleiri. Ég hef heyrt einmitt fleiri dæmi af því að þetta mál er komið á það stig að Indónesíustjórn er orðin viðkvæm fyrir því. Hún er viðkvæm fyrir orðstír sínum á alþjóðavettvangi og þess vegna skiptir það máli að þeir viti að jafnvel hér lengst norður í höfum er fólk sem fylgist með því sem þeir eru að gera og sem fylgist með mannréttindabrotum og vill skipta sér af og segja við menn að þeir framfylgi ekki þeim sáttmálum sem m.a. Sameinuðu þjóðirnar hafa samþykkt.
    Ég vil bara þakka fyrir þetta og hvetja hæstv. utanrrh. til frekari dáða í þessu máli sem og öðrum þar sem mannréttindi eiga í hlut.