Kynning á íslenskri menningu

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 11:45:02 (1653)


[11:45]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég skil það og virði að þetta mál er takmarkað við menningargeirann og vil aðeins taka það skýrt fram hér og nú að ég held að það sé að mörgu leyti æskilegt að reyna að vinna gegn því að hinar svokölluðu fögru listir þróist of mikið frá atvinnulífinu. Þær eru upphaflega runnar upp í atvinnulífinu, í handverkinu og þangað þurfa þær alltaf að sækja efnivið sinn. Það er því mjög brýnt að listhneigðin sé virkjuð í þágu atvinnulífsins og atvinnulífið fái áhuga á listverki. Þessi klofningur sem hefur skapast hér eins og annars staðar í heiminum milli atvinnulífsins og listgreinanna er dapurlegur og það er mikill vilji hjá mörgum listamönnum nú, ekki síst í myndlist, þá er mikill vilji að vinna sér traust í samfélaginu og þess vegna er kannski þetta liður í því að reyna að brúa þetta bil sem hefur löngum verið nokkuð mikið. Það er að finna samnefnara fyrir áhugamál atvinnulífsins og listgreinanna. Ég á aðeins örfáar sekúndur eftir sýnist mér en ég ætla að geta þess í lokin að þetta er einmitt það sem tilraunin var gerð með norður á Akureyri, um Listagilið, þ.e. sameina handverksfólkið og listamennina og reyna að vekja athygli atvinnulífsins á því sem þar er að gerast, brúa þetta bil sem hefur verið okkur nokkuð skaðlegt.