Kynning á íslenskri menningu

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 11:52:18 (1655)


[11:52]
     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vildi nota þetta form umræðunnar til þess að þakka fyrir þær ábendingar sem fram komu hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur. Ég held að þær sýni að við sem höfum talað í þessu máli erum í raun og veru sammála um flest það sem skiptir máli í þessu efni. Spurningin er bara hvernig við komum þessu fyrir tæknilega. Efnisatriðin eru þannig að menn sýna góða samstöðu um þau og það finnst mér ánægjulegt. Það er gott að það skuli hafa verið talað hér um íslenska menningu og kynningu á henni í 90 mínútur. Það er þó nokkuð þrátt fyrir allt miðað við það sem við eigum að venjast.
    Ég vil ekki síst taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich að við þurfum að losa okkur við þessa ribbaldaímynd sögunnar sem við höfum tekið á okkur viljug tel ég vera. Þessi ímynd sem blasir við af fullum víkingum fremjandi ofbeldisverk er ekki sú ímynd sem ég vil að sé af íslenskri menningu. Íslensk menning er í senn vönduð hámenning og alþýðumenning, samanber bókmenntirnar, söguna sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir minnti á hér áðan. Þess vegna tek ég alveg sérstaklega undir það og legg á það áherslu að við reynum auðvitað að draga þessa þætti saman. En vandinn er sá og þá um leið kosturinn að það verður aldrei gert hér úr þessari stofnun því að íslensk menning er auðvitað til úti í þjóðfélaginu og það verða aldrei búnar til neinar forskriftir af neinu tagi hér úr þessari stofnun um það hvernig hlutirnir eiga að vera í einstökum atriðum. Það besta sem til er í íslenskri menningu er sjálfsprottið úti á akrinum. En spurningin er sú hvort við getum hjálpað til þannig að þróunin verði sem jákvæðust. En við sáum í raun og veru aldrei stofnun af þessu tagi en ég taldi engu að síður ástæðu til þess að þakka fyrir þá jákvæðu umræðu sem hér hefur farið fram.
    ( Forseti (VS): Ég vil benda hv. þm. á að hann má tala einu sinni enn.)