Réttur verkafólks til uppsagnarfrests

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 12:20:02 (1660)


[12:20]
     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er fjallað um er brýnt hagsmuna- og réttindamál og er að mínu mati meiður af stóru og flóknu vandamáli sem við Íslendingar búum við. Það er því miður svo í okkar þjóðfélagskerfi að það er mikið um falsvonir og það hefur farið vaxandi að mínu mati þó að menn séu kannski að vinna verkin eins vel og þeir geta frá degi til dags í hinu almenna stjórnkerfi. Við sjáum hvernig launamisrétti hefur stóraukist á undanförnum árum, hvernig bilið á milli þeirra lægst launuðu og hæst launuðu eykst óðfluga og er gersamlega óásættanlegt og óeðlilegt í samfélagi eins og við búum í. Við sjáum hvernig farið er með marga hluti og samtryggingakerfið verður flóknara og flóknara. Við getum nefnt dæmi í þessu sambandi.
    Kerfin öll sem við höfum sett á, hvort sem það er vinnueftirlit, rafmagnseftirlit, heilbrigðiseftirlit og hvað svo sem það heitir allt saman þar sem hlaðast upp hópar fólks sem mata sér vinnu og auka kostnaðinn í kerfinu langt umfram það sem eðlilegt er hjá lítilli þjóð eins og Íslendingum. Traustið er einskis virt, verkþekkingin enn síður og þannig erum við á margan hátt, virðulegi forseti, komin að mínu mati í mjög slæma sjálfheldu.
    Við horfum á það kalt og rólega að álagið í vinnunni er mest í tveimur stéttum, tveimur stéttum tvímælalaust. Það er mest í fiskvinnslunni hjá fiskvinnslufólki þar sem konur eru stærsti hluti verkafólks og hins vegar í heilbrigðiskerfinu, á sjúkrahúsunum. Þar eru launin lægst og vinnuálagið mest, í sumum tilvikum þrældómur. Og svo erum við Íslendingar að státa okkur af því að vera í fremstu röð lýðræðis- og menningarþjóða.
    Maður gæti farið í ýmsa útúrdúra um nýtingu á hlutum, svo sem það hvernig við Íslendingar nýtum fiskafurðir miðað við Japani en þar erum við aftarlega á merinni miðað við þá þjóð sem vinnur hvað nýtnast af öllum þjóðum heims. En allt er þetta hluti af stóru dæmi. Ábyrgð verkamannsins, ábyrgð verkakonunnar í fiskinum eða þeirrar sem eru í þjónustu á sjúkrahúsinu er augljós og mikil. Ábyrgð hins háttlaunaða bankastjóra, hver er hún í ríkiskerfinu? Hver er hún?
    Þetta er spurning sem við ættum kannski að velta fyrir okkur oftar og kryfja til mergjar og taka á vegna þess að eins og upphaflega var sagt: Með lögum skal land byggja, þá horfum við til þess að þetta land verður ekki byggt af sjálfstæðri þjóð Íslendinga nema það sé sátt um það fyrirkomulag og það kerfi sem við ætlum að búa við frá degi til dags. Þau tilvik sem ég hef nefnt hér í stuttu máli ganga ekki til þess að sætta fólkið í landinu við það umhverfi og þær aðstæður sem það ætlar að búa í.
    Ég þakka hv. 1. flm., Elínbjörgu Magnúsdóttur, sérstaklega fyrir hennar ræðu áðan sem var yfirgripsmikil, flutt af mikilli þekkingu á málinu og horft vítt til veggja, þakka henni fyrir það að hafa fylgt þessu máli fram. Því að þó að hér sé um kannski tiltölulega þröngan þátt að ræða í réttindum verkafólks, þá er það mikilvægur réttur og er til þess að undirstrika mannréttindi og fyrst og fremst réttlæti.
    Ef við Íslendingar horfum til þess hvar fjárfestingin liggur. Liggur fjárfestingin þar sem fólkið vinnur sem skilar mestum gjaldeyristekjunum eða stuðlar að þeim vettvangi, sjómenn og verkafólk? Liggur fjárfestingin þar í hinu daglega brauði? Nei, hún liggur ekki þar. Þar er ekki jeppaflotinn, þar eru ekki villurnar ( Gripið fram í: Og ekki marmari.) og þar er ekki marmari, þar er einfaldari viður í hurðarkörmum. Þessi fjárfesting liggur ekki heldur hjá því fólki sem vinnur þau erfiðu störf í heilbrigðisþjónustunni sem við vitum af dags daglega og eru öryggisventill íslensks samfélags, þáttar sem tekur nær helming íslenskra fjárlaga á hverju ári. Fjárfestingin liggur einhvers staðar í lausu lofti hjá aðilum sem kunna og geta spilað á kerfið. Auðvitað kalla svona ummæli á langa umræðu og miklar vangaveltur og rökræður. Til þess eru ekki efni að þessu sinni en þetta er engu að síður staðreynd málsins. Hér er sjónum beint að ákveðnum þáttum sem eru grundvallarréttindi og ég vil taka undir af heilum hug.