Réttur verkafólks til uppsagnarfrests

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 12:34:39 (1662)


[12:34]
     Árni Johnsen (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þegar hv. þm. Margrét Frímannsdóttir orðar það svo að líklega sé staðan í réttinda- og kjaramálum verkafólks lítið skárri og líklega ekkert skárri en fyrir 10--20 árum þá vil ég kveða heldur fastar að orði og taka undir með þingmanninum því að staðan er ekkert betri, því miður. Það er alveg saman hvort við erum að tala um 1969, 1979, 1989 og hugsanlega 1999. (Gripið fram í.) Það er stutt í 1999 og það er ekkert sem hefur gefið vísbendingar um að við séum að komast út úr þeirri sjálfheldu sem við erum í og stöðnun í öllum vinnubrögðum er lúta að þessum málum. Hvort sem þar er um að kenna stjórnvöldum, verkalýðshreyfingunni, atvinnurekendum skal ég ekki fjalla um nú. Þar eru allir samsekir og þróunin er einfaldlega sú að málið gengur ekki upp. Þetta er sú staða sem blasir við okkur og ég vildi aðeins árétta vegna ræðu hv. þm.