Réttur verkafólks til uppsagnarfrests

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 12:44:30 (1664)


[12:44]
     Þuríður Backman :
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir hv. þm. sem hafa komið hér upp á undan mér byrja á því að þakka hv. þm. Elínbjörgu Magnúsdóttur fyrir hennar framsögu og sérstaklega góða greinargerð með þáltill. Hafi þingmenn ekki áttað sig á því hvernig atvinnuástandið er í dag, atvinnuréttindi og réttindi fólks til launa vegna sjúkdóma- og slysaforfalla og eins vegna uppsagna á störfum þá á þetta að vera okkur öllum ljóst nú eftir hennar framsögu.
    Ég vil byrja á því að benda á það að við Íslendingar viljum geta borið okkur saman við Norðurlandaþjóðirnar, við Evrópubúa, um allt milli himins og jarðar. Við viljum vera á sama menningarstigi, við viljum hafa sama hagvöxt, en þegar kemur svo að launum og starfsréttindum, þá getum við því miður ekki borið okkur saman við þessar þjóðir. Þar höfum við dregist verulega aftur úr, en í því atvinnuleysi sem hefur verið undanfarin ár hefur réttur verkafólks verið fótumtroðinn. Hér hefur sérstaklega verið tekið fram og bent á réttindaleysi verkafólks í fiskiðnaði, en það eru stórir láglaunahópar og þá kannski ekki síst konur, sem hafa farið mjög illa út úr því ástandi sem hefur hér varað á vinnumarkaðnum og eru til hópar sem hafa engan ráðningarsamning. Það eru aðilar sem verða að ráða sig til vinnu sem verktakar, sem er náttúrlega hreinasti skrípaleikur í okkar atvinnulífi. Þessir undirverktakar eða verktakar eru réttindalaust fólk. Það er líka stór hópur sem tekur ekki að sér verk sem verktaki, heldur er ráðinn til vinnu munnlega, án nokkurra skriflegra samninga og hefur í raun ekki hugmynd um það hvort það er dagsuppsagnarfrestur, vikuuppsagnarfrestur eða hvaða réttindi hann yfirleitt hefur og verður að láta sig hafa það ef þeir vilja fá vinnu. Það er erfitt að taka á þessum málum, sérstaklega hjá þeim sem verða að sætta sig við það ástand, að ráða sig til vinnu án nokkurra samninga, en réttindaleysi þessa fólks er mest af öllu. Það eru ekki síst konur og láglaunahópar sem verða að sætta sig við þetta ástand. Ég vona að þessi þáltill. verði samþykkt því eins og hér hefur komið fram erum við því miður langt á eftir hvað varðar réttindamál verkafólks á þessu sviði. Ég vona að við getum afgreitt þetta skjótt svo við getum borið höfuðið hátt.