Takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 13:32:09 (1666)

[13:32]
     Frsm. sjútvn. (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Þessu frv. um takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu var vísað til sjútvn. Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund hina ýmsu fulltrúa, meðal þeirra Ágúst H. Elíasson, framkvæmdastjóra Samtaka fiskvinnslustöðva, Gunnar Flóvenz, formann Síldarútvegsnefndar, Dagmar Óskarsdóttur, formann Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi, Kristján Ragnarsson, formann LÍÚ, Benedikt Valsson, framkvæmdastjóra Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Helga Laxdal, formann Vélstjórafélags Íslands, og frá Sjómannasambandi Íslands var mættur Sævar Gunnarsson formaður og Hólmgeir Jónsson framkvæmdastjóri. Einnig kom á fund nefndarinnar Halldór Árnason, aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra.
    Nefndin taldi rétt að gera örlitla breytingu á 2. gr. frv. Það var að á eftir orðinu ,,útvegsmanna`` í fyrri mgr. komi: svo og umsagna samtaka sjómanna.
    Fjarstaddir afgreiðslu málsins voru Steingrímur J. Sigfússon og Jóhann Ársælsson. Anna Ólafsdóttir Björnsson og Jóhanna Sigurðardóttir sátu fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúar og eru þær samþykkar áliti þessu.
    Undir þetta álit rita Matthías Bjarnason, Gunnlaugur Stefánsson, Stefán Guðmundsson, Guðmundur Hallvarðsson, Ragnar Þorgeirsson, María E. Ingvadóttir og Vilhjálmur Egilsson.
    Efni þessa frv. er að reyna að beita öllum tiltækum ráðum til þess að sem mest af þeirri síld sem veiðist fari til manneldis. Það út af fyrir sig réttlætir flutning og samþykki þessa frv. Annars finnst mér þetta frv. ekki vera neitt stórt atriði, en það er talið af stjórnvöldum nauðsynlegt að fá óskoraða heimild í þessu sambandi og ég hygg að ég megi segja fyrir hönd allrar nefndarinnar að það er því fyrst og fremst það sem gerir að nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þessari tilteknu breytingu.

    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 3. umr.