Málefni Atlanta-flugfélagsins

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 14:12:31 (1674)


[14:12]
     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð hv. málshefjanda, Halldórs Ásgrímssonar, þegar hann lýsir áhyggjum sínum að á tímum þar sem verið er að vinna að því að koma í veg fyrir atvinnuleysi á Íslandi þá eigi sér stað slíkir atburðir sem nú eru að gerast varðandi Atlanta. Íslensk flugfélög með Flugleiðir í broddi fylkingar, forvera þeirra og önnur flugfélög hafa unnið merkilegt starf á sviði alþjóðamarkaða í flugrekstri og sýnt að þeir standa þar í fremstu röð og Atlanta er yngsta félagið af íslenskri hálfu á þessum vettvangi og hefur brotið blað á þann hátt að það leitar nýrra markaða fyrir sérþekkingu Íslendinga á þessu sviði. Það hefur haslað sér völl á nýjum mörkuðum á breyttum tímum þar sem markaðarnir eru opnari en áður og heimurinn er minni til þess að vinna á í þessu sambandi.
    Það er ljóst að FÍA er að verja hagsmuni tiltölulega þröngs hóps og er kannski rétt að lýsa þessu verkfalli svokallaða sem fræðilegu frekar en raunverulegu venjulegu verkfalli því að það eiga margir að fara í verkfall af hálfu FÍA en þó ekki þeir sjálfir. Nú er enginn FÍA-maður í störfum hjá Atlanta og það segir auðvitað sína sögu og þannig er málið allflókið fræðilega. Ég held að það sé mikil ástæða til þess að hvetja alla aðila málsins til þess að slíðra sverðin og koma í veg fyrir það að Íslendingar einangrist á þessum markaði og taki til hendinni við að hreinsa út þannig að Atlanta geti starfað sem íslenskt félag á eðlilegum grundvelli.