Málefni Atlanta-flugfélagsins

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 14:21:02 (1678)


[14:21]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs var það sem hv. 3. þm. Reykn. sagði hér áðan og er bersýnilega fyrst og fremst til þess ætlað að vekja í framhaldi af þessu máli upp spurningar varðandi vinnulöggjöfina og samskipti aðila vinnumarkaðarins. Það hefur komið fram að undanförnu að ákveðnir aðilar í íslenskum stjórnmálum, einkum úr Sjálfstfl. en líka annars staðar að, hafa verið með hugmyndir um það að breyta með mjög róttækum hætti vinnulöggjöfinni á Íslandi og í raun og veru að veikja stöðu stéttarfélaganna. Þó að ég taki undir það að stéttarfélögin þurfi að sýna tillitssemi og fara yfir heildarhagsmuni í sambandi við sín mál og ég taki undir það að nauðsynlegt sé að leiða þetta mál til lykta sem hér er til umræðu með sátt milli aðila þannig að tryggt verði eins og kostur er að þessi atvinnustarfsemi verði hér í landinu, ég tek undir það, þá vil ég líka hvetja til þess að menn misnoti ekki þetta mál til þess að hefja upp stórfelldar kröfur um að breyta vinnulöggjöfinni og þar með að þrengja að verkalýðsfélögunum í landinu. Ég tel að málið sé líka þannig að það sé ekkert tilefni til þess að hafa uppi slíkar kröfur um þessar mundir.
    Ég bendi á að það eru nokkrir mánuðir síðan að það heyrðust þær raddir að það væri nauðsynlegt að fara í breytingar á vinnulöggjöfinni, jafnvel einhliða. Ég minnist þess að þá komu upp upplýsingar um það að hafnar væru viðræður um breytingar á vinnulöggjöfinni á vegum félmrn., ef ég man rétt, og Vinnuveitendasambandsins og Alþýðusambandsins. Ég hef ekki heyrt af því hvernig þessar viðræður standa en ég vil spyrja hæstv. félmrh. að því hvort hún þekkir til þessara viðræðna og um leið hvetja til þess að það verði ekkert, bókstaflega ekkert gert í málum af þessu tagi sem varða breytingar á hinni almennu vinnulöggjöf öðruvísi en um það ríki full sátt við samtök launafólks í landinu.