Sala hlutabréfa í Lyfjaverslun Íslands hf.

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 14:35:59 (1684)


[14:35]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Það þarf ekki að rifja upp eftir þessa ræðu að hv. þm. var á móti því að breyta Lyfjaverslun ríkisins í hlutafélag og selja hlutabréfin. Það sagði hann sjálfur. Varðandi greiðslukjör vil ég taka fram eftirfarandi:
    Samkvæmt lögum nr. 57/1987, um opinber innkaup, fer fjmrh. með kaup og sölu eigna ríkisins. Ekki eru í gildi neinar sérstakar reglur eða lagafyrirmæli um greiðslukjör. Við sölu og kaup hefur almennt verið miðað við þau kjör sem tíðkast á þeim markaði sem eignirnar hafa verið. Í raun var ekki um eiginleg lánsviðskipti að ræða við sölu hlutabréfa í Lyfjaverslun Íslands hf. heldur var ákveðið að selja hlutabréfin með greiðslukjörum. Til tryggingar greiðslum skyldu útbúin skuldabréf og hlutabréfin höfð að handveði hjá seljanda. En það þýðir að sjálfsögðu að ekki er hægt að eiga viðskipti með bréfin meðan á því stendur. Dæmi eru um sambærileg greiðslukjör við sölu ríkisins á hlutabréfum.
    Í fyrsta lagi: Kaupendur SR-mjöls hf. greiða söluverðið á 19 mánuðum. Útgefin eru vaxtalaus skuldabréf.
    Í öðru lagi: Starfsmenn Jarðborana hf. hafa fengið sömu greiðslukjör við sín kaup og starfsmönnum Lyfjaverslunar býðst.
    Í þriðja lagi: Við sölu hlutabréfa ríkisins í Flugleiðum 1985 voru greiðslukjör þannig að 77% kaupverðs voru greidd með skuldabréfi til átta ára, vaxtalaust.
    Samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi hf. er það algengt að í viðskiptum með hlutabréf í lokuðum félögum og í viðskiptum stærri aðila með hlutabréf í skráðum almenningshlutafélögum sé um að ræða greiðslukjör. Að því leyti er enginn eðlismunur á slíkum viðskiptum og öðrum sem fyrirtæki og stærri aðilar gera.
    Það skal tekið fram að útborgun, t.d. í fasteignakaupum, sem auðvitað á ekki hér við, er ekki lán þótt útborgunin geti átt sér stað á einu eða tveimur árum. Á því þarf að gera mikinn mun. Afsal á sér yfirleitt ekki stað fyrr en að fullu hefur verið greitt og það sama gildir um afhendingu þeirra bréfa sem hér er um að ræða.
    Þegar verðmat hlutabréfa Lyfjaverslunar Íslands var unnið lá fyrir ákvörðun um þau greiðslukjör sem almenningi yrðu boðin. Þau voru því höfð til hliðsjónar við mat bréfanna og á söluhorfum.
    Varðandi þá fyrirspurn sem kom fram um það hvort selja eigi hinn helminginn eftir áramót er rétt að taka fram að í morgun samþykkti ríkisstjórnin að beina því til þingflokka stjórnarinnar að flýta þeirri sölu og mun frumvarp væntanlega verða lagt fram í næstu viku þannig að hægt sé að ljúka sölu bréfanna sem allra fyrst.
    Spurt var um Búnaðarbankann. Það skal tekið fram að fyrir liggja áform viðskrh. að koma fram með frv. sem gerir ráð fyrir breytingu á eignarformi bankans þannig að honum verði breytt í hlutafélag, en engin ákvörðun hefur verið tekin um sölu bankans.
    Hvað varðar gengi bréfanna og verðmæti og aðrar fyrirspurnir hv. fyrirspyrjanda skal tekið fram að 300 millj. kr. endurbætur á fyrirtækinu komu til vegna lána sem fyrirtækið tók sjálft og skuldar mestan hluta þeirra lána enn þá. Það er því ekki hægt að bæta því við reikninginn eins og allir vita sem nálægt fyrirtækjarekstri hafa komið. Þetta var ekki lán frá ríkinu til fyrirtækisins heldur lán sem fyrirtækið tók sjálft og þarf að standa skil á og fellur að sjálfsögðu inn í reikningana.
    Þegar spurt er hvers virði bréfin séu og tekið tillit til greiðslukjaranna og þeirra fríðinda sem fást vegna skattalaga er því til að svara að allt þetta lá fyrir þegar gengi bréfanna var ákveðið. Það var Handsal hf. sem fór yfir mat Kaupþings þannig að tvö verðbréfafyrirtæki komu að málinu. Eitt er hægt að segja eingöngu um þetta atriði og það er að ekkert er öðruvísi farið með bréf í Lyfjaverslun Íslands en í öðrum fyrirtækjum á markaðinum. Slík fyrirtæki fá skattfríðindi, þ.e. þeir sem kaupa hlutabréf í slíkum fyrirtækjum fá að sjálfsögðu sams konar skattfríðindi og um er að ræða fyrir þá sem eru að kaupa bréf í þessu nýja fyrirtæki.
    Virðulegi forseti. Ég vona að mér hafi auðnast að svara þeim fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint. Ég verð að segja að það hefur valdið ánægju hve vel hefur tekist að selja þessi hlutabréf og ég tel að þau vinnubrögð sem þarna hafa verið stunduð, bæði af hálfu einkavæðingarnefndar og fyrirtækjanna sem um sölu bréfanna sáu, séu til fyrirmyndar.