Sala hlutabréfa í Lyfjaverslun Íslands hf.

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 14:46:07 (1687)


[14:46]
     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni þá er það rétt að við framsóknarmenn stóðum að því að hluti af þessu fyrirtæki væri seldur með ákveðnum skilmálum og samkomulagi sem við töldum að um það hefði verið gert. Eitt af því var einmitt það að sjá hverju fram yndi, hver yrði framgangur þessarar sölu og hvernig starfsemi þessa fyrirtækis mundi reiða af við þær aðstæður. Við vorum sem sagt ekki tilbúin til þess að leggja málinu lið með því móti sem hæstv. fjmrh. boðar hér og nú.
    Mig langaði aðeins að spyrja hæstv. ráðherra þó tíminn sé naumur. Í sambandi við söluna á SR-mjöli þá voru athugasemdir Ríkisendurskoðunar m.a. í því fólgnar að hæstv. ríkisstjórn hefði ekki farið eftir þeim verklagsreglum sem hún hafði þó sjálf mótað. Það kom fram í áliti Ríkisendurskoðunar að það þyrfti að setja skýrari reglur um það hvernig staðið væri að einkavæðingu og sölu ríkisfyrirtækja.
    Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hefur verið áfram unnið í því máli og telur hann að við þessa sölu hafi t.d. verið tekið tillit til sumra þeirra athugasemda sem Ríkisendurskoðun setti fram í sinni skýrslu? Ég leyfi mér að efast um að svo hafi verið.
    Mig langar einnig að spyrja: Er það virkilega svo að menn geti talið eðlilegt að bjóða í lengri tíma óverðtryggð og vaxtalaus lán? Þær upplýsingar sem hæstv. ráðherra gaf hér varðandi söluna á SR-mjöli koma mér reyndar nokkuð á óvart hvað það varðaði. Getur þó verið að það hafi komið fram áður, ég skal

ekki fullyrða um það.
    Eins með verðlagninguna. Það var m.a. eitt af því sem gagnrýnt var í skýrslu Ríkisendurskoðunar um SR-mjöl hvernig staðið hafi verið að verðlagningu. Er það ekki svo að salan á verðbréfunum í þessu fyrirtæki í gær sýni það að ekki hafi verið staðið nægilega vel að verðhugmyndum á hlutabréfum í Lyfjaverslun Íslands?