Sala hlutabréfa í Lyfjaverslun Íslands hf.

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 14:48:14 (1688)


[14:48]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel satt að segja að salan á þessum hlutabréfum og þau góðu kjör sem boðið er upp á sé eins og blaut tuska framan í fátækt fólk í landinu. Það er alveg sama hvað menn segja um tæknilegan aðdraganda málsins, þetta verkar siðlaust. Þetta er þannig að sá maður sem kaupir hlutabréf fyrir 250 þús. kr. borgar 50 þús. kr. og fær 200 þús. kr. lánaðar í tvö ár óverðtryggt og vaxtalaust og fær auk þess út á það 85 þús. kr. skattaafslátt. Auk þess ávísun á arð fyrirtækisins á næstu árum. Segjum að hann sé 5--10% þá eru menn að tala um það að menn fái þetta fyrirtæki og þessi hlutabréf ekki á 1,35 heldur langt undir því verði sem er gefið upp á þessum bréfum. Þegar þetta gerist á sama tíma og fólk er að missa eigur sínar vegna fátæktar og atvinnuleysis þá gengur þetta ekki vegna þess að það rífur í réttlætiskenndina í brjósti hvers einasta manns sem á annað borð á eftir af einhverju slíku. Ég segi alveg eins og er að mér finnst fyrir því að hæstv. fjmrh. skuli ekki átta sig á því hvað þetta er í mikilli hrópandi andstöðu við þann veruleika sem venjulegt launafólk og atvinnulaust fólk á Íslandi má búa við í dag. Þetta gengur ekki. Á sama tíma og þetta gerist er t.d. fjmrn. að móast við að það verði samið frv. um greiðsluaðlögun vegna vanskilaskulda fólks á sama tíma og boðið er upp á þetta partý, þetta hlutabréfapartý.
    Þetta gengur ekki, hæstv. ráðherra.