Rannsóknarráð Íslands

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 15:47:12 (1697)


[15:47]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 61/1994, um Rannsóknarráð Íslands. Þetta er 136. mál þingsins og er á þskj. 142. Meðflm. mínir á þessu lagafrv. eru hv. þm. Björn Bjarnason og Guðjón Guðmundsson.
    Frv. er í tveimur greinum og fjalla um skipan í Rannsóknarráð Íslands.
    Alþingi setti lög um Rannsóknarráð Íslands á 117. löggjafarþingi. Er þar orðinn til einn stjórnunarvettvangur rannsókna- og vísindastarfa í landinu þar sem áður voru tveir, Vísindaráð Íslands og Rannsóknaráð ríkisins. Hagnýtar rannsóknir í þágu atvinnuveganna sem áður heyrðu undir Rannsóknaráð ríkisins og grunnrannsóknir sem heyrðu undir Vísindaráð Íslands heyrðu þá með þessari breytingu undir sama ráðið sem gegnir samkvæmt gildandi lögum víðtæku samræmingarhlutverki, stefnumörkun í rannsóknum, ráðgjöf til stjórnvalda og eftirlits- og kynningarhlutverki.
    Í 3. gr. laganna sem þetta frv. snertir fyrst og fremst er kveðið á um hverjir skuli gera tillögur um setu í Rannsóknarráði Íslands. Eru þar tilnefndar m.a. vísindastofnanir og rannsóknastofnanir atvinnuveganna. Ekki er kveðið á um að atvinnulífið geti með ótvíræðum hætti haft áhrif á skipan í ráðið, eins og t.d. rannsóknastofnanir. Engu að síður er það svo að samkvæmt lögunum þá fjallar Rannsóknarráð Íslands á mjög breiðum grundvelli um hagnýtar rannsóknir, nýsköpun í atvinnulífi og stefnumótun í rannsókna- og vísindastarfi. Ber ráðinu að beita sér fyrir áætlanagerð um rannsóknir og þróunarstarf í samráði við atvinnulífið.
    Rannsóknarráð Íslands veitir styrki til rannsókna, m.a. til þeirra stofnana sem gera tillögur samkvæmt lögum um setu í ráðinu. Þess utan er ráðinu gert með lögum að meta árangur rannsóknastarfs og gera þá í kjölfar þess tillögur til úrbóta ef starfsemin er metin ófullnægjandi, skipulag eða skilyrði talin ófullkomin eða ákveðin rannsóknasvið vanrækt. Af þessum sökum m.a. er ljóst að mikils er vert að ráðið sé óháð þeim rannsóknaraðilum sem það á að veita aðhald, sem og að atvinnulífið eigi aðgang í ráðið ekki síður en rannsókna- og vísindastofnanir.
    Þegar frumvarpið um Rannsóknarráð Íslands var til umfjöllunar í menntamálanefnd Alþingis, það hét að vísu þá frv. til laga um Vísinda- og tækniráð Íslands, bárust nefndinni ábendingar um þá meinbugi sem á málinu voru en þeir voru fyrst og fremst að ekki væri gert ráð fyrir fulltrúum frá atvinnulífinu við skipan ráðsins. Athugasemdir bárust menntamálanefnd frá Rannsóknarráði ríkisins, millifundanefnd háskólaráðs Háskóla Íslands, Samtökum iðnaðarins, Iðntæknistofnun, Alþýðusambandi Íslands og Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Eru þessar umsagnir birtar sem fylgiskjöl með frumvarpinu.
    Menntmn., en sá sem hér flytur þetta mál situr í menntmn., brást við þessum ábendingum með því að fella inn í 3. gr. laganna ákvæði um að menntmrh. skyldi við skipan í ráðið gæta þess að jafnvægi yrði milli vísinda og tækni og að sjónarmið atvinnulífsins kæmu fram í ráðinu. Við framkvæmd laganna hefur að mati flm. þessa ekki verið gætt né heldur hins að stofnanir, sem Rannsóknarráð Íslands skal lögum samkvæmt veita aðhald, geti ekki haft það sem kalla mætti óeðlilega mikil áhrif á störf þess.
    Í frv. er farin sú leið að fjölga ráðsmönnum um tvo. Gert er ráð fyrir að Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands geri tillögur um ráðsmenn samkvæmt ákvæðum þar að lútandi sem sett verði með reglugerð. Þeim einstaklingum sem ráðherra skipar nú samkvæmt gildandi lögum án tilnefningar er fækkað um einn. Ráðherra hefur samkvæmt lögunum mikil áhrif á val í Rannsóknarráð og þykja flm. áhrif hans á heildarskipan ráðsins tryggð nægilega með þeim hætti sem hér er lagt til.
    Ákvæði frv. um gildistöku taka mið af því að nú þegar hefur nýskipað Rannsóknarráð Íslands ráðist í það mikla verkefni að skipuleggja starf ráðsins á nýjum forsendum. Því er gildistíminn miðaður við 1. janúar 1996 þannig að ráðinu gefist tækifæri til að ljúka því undirbúningsstarfi sem nú stendur yfir.
    Flm. gera ekki ráð fyrir að frv. hafi áhrif á skipun fagráða ellegar á ráðningu framkvæmdastjóra.
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki við þessa umræðu, nema sérstök ástæða verði til þess, fara yfir þær ábendingar sem koma fram í fylgiskjali. Það er hins vegar rétt að benda á það að hv. menntmn. Alþingis hefur borist bréf frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum iðnaðarins og Vinnuveitendasambandi Íslands þar sem lögð er áhersla á það að Samtök iðnaðarins hafi í athugasemdum sínum bent á að til þess að ná fram því yfirlýsta markmiði að tryggja að sjónarmið atvinnulífsins kæmu fram í ráðinu yrði atvinnulífið að

standa a.m.k. jafnfætis við rannsóknastofnanir háskólans hvað varðar tilnefningar í Rannsóknarráð.
    Í bréfinu er einnig bent á að í umsögn Alþýðusambands Íslands, þar sem bent er á að það flókna kerfi sem í frv. felist veiti ráðherra of mikið sjálfsákvörðunarvald í skipun ráðsins þannig að óvíst sé hvort sjónarmið atvinnulífsins fengju notið sín í ráðinu. Sú breyting sem hv. menntmn. Alþingis gerði á frv. var með þeim hætti að þessir aðilar sem bréfið rita töldu þær breytingar ófullnægjandi. Þessir aðilar koma einnig inn á það í sínu bréfi til menntmn. að við skipan ráðsins sl. haust hafi komið í ljós að ofangreindar efasemdir í umsögnum hafi átt fullan rétt á sér þegar hæstv. menntmrh. skipaði fimm prófessora og þrjá fulltrúa rannsóknastofnana í Rannsóknarráði Íslands.
    Þá koma bréfritarar inn á það frv. sem hér hefur verið mælt fyrir í dag og lýsa í bréfinu yfir stuðningi við frv. og fara fram á það við menntmn. Alþingis að hún stuðli að því að þessar breytingar nái fram að ganga. Ég vil aðeins að lokum, virðulegi forseti, geta þess að samkvæmt ábendingum sem m.a. komu fram í skýrslu OECD um rannsóknar- og þróunarstarf á Íslandi var lögð áhersla á að það þyrfti að finna leiðir til þess að hvetja atvinnulífið til að taka ríkari þátt í rannsóknastarfi á Íslandi heldur en verið hefur. Samkvæmt ábendingum frá þessum sama aðila hefur einnig verið farin sú leið að auka verulega það óbundna, ef svo mætti orða það, rannsóknafé sem við höfum til styrkveitinga til stofnana og fyrirtækja sem vilja taka að sér sérstök rannsóknaverkefni.
    Þar sem Rannsóknarráð Íslands fer með stjórn slíks sjóðs er mjög brýnt að sjónarmið atvinnulífsins komi þar skýrt fram til þess að sjóðurinn megi uppfylla þær væntingar sem til hans eru gerðar. Af þeim ástæðum er hér lagt til að aðgangur atvinnulífsins inn í Rannsóknarráð Íslands verði tryggður með lögum og á þann hátt að Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands geri tillögur þar að lútandi.
    Auðvitað er nokkuð erfitt, virðulegi forseti, að velja til þess fulltrúa að standa fyrir sjónarmiðum atvinnulífsins í heild. Það er nokkuð vandmeðfarið og telur sá sem hér stendur, 1. flm. frv., að ekki sé auðvelt að finna eðlilegri né réttlátari leið til þess en þá sem farin er í þessu frv.
    Að lokinni 1. umr. um þetta lagafrv. legg ég til að því verði vísað til 2. umr. og til hv. menntmn.