Rannsóknarráð Íslands

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 16:05:35 (1700)

[16:05]
     Valgerður Sverrisdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er eflaust rétt hjá hv. þm. að hann hafi komið inn á þetta við 1. umr. um málið, mér dettur ekki í hug að rengja það. Ég skal viðurkenna það að ég hef ekki lesið hana alveg nýlega. En hv. þm. sætti sig samt sem áður við það í hv. menntmn. að frv. færi frá henni í þeim búningi sem það varð að lögum. Það gerði sú sem hér stendur reyndar líka. En ef hv. þm. er það ekki minnisstætt þá lagði sú sem hér stendur til að sá texti sem kom frá Rannsóknaráði ríkisins færi inn í frv. Því var ekki tekið vel og það varð ekki niðurstaðan vegna þess að hv. formanni hefur væntanlega þótt hún ganga nógu langt í því að koma inn texta sem varð síðan að lögum sem var á þá leið að gæta þyrfti sjónarmiða atvinnulífsins.
    En hæstv. menntmrh. telur að þetta séu góð lög eins og þau eru í dag og hv. þm. hefur ekki svarað því hvort hæstv. menntmrh. styður þetta frv.