Störf landpósta

38. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 15:31:52 (1718)


[15:31]
     Eggert Haukdal :
    Virðulegur forseti. Í greinargerð sem Félag íslenskra landpósta sendi samgn. Alþingis segir svo m.a., með leyfi forseta:
    ,,Póst- og símamálastofnun hefur algerlega brotið það loforð að engum fastráðnum landpósti yrði sagt upp störfum. Stofnunin hefur vaðið áfram með útboð og ekki hikað við að segja upp landpóstum sem hafa þjónað stofnuninni í 10--20 ár og hafa áunnið sér mjög gott orð, bæði stöðvarstjóra og ekki síst fólksins sem þeir þjónusta.``
    Í lok þessarar greinargerðar segir svo:
    ,,Við landpóstar spyrjum: Hvers vegna neitar Póst- og símamálastofnunin að ganga til samninga við landpósta um hagræðingu, skipulagsbreytingar og kjaramál og ná með þeirri samningsgerð betri og farsælli þjónustu fyrir alla?``
    Þessi orð eru vissulega alvarleg og sýna að yfirmenn í stofnunum þyrftu að fara í skóla að læra framkomu við undirmenn sína. Þeir virðast ekki kunna að starfa eðlilega. Þetta bréf sýnir dæmi um miskunnarleysi, mannúðarleysi sem allt of mikið viðgengst hjá valdsmönnum í okkar blessaða þjóðfélagi. Mætti umræðan leiða til þess að menn opni augun fyrir þessari staðreynd og að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir að tekin verði upp mannúðlegri vinnubrögð í málinu en sýnast hafa verið notuð.