Störf landpósta

38. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 15:35:48 (1720)


[15:35]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég tek undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar. Ég get reyndar gert þau orð hans að mínum að það var síðasta setning í svari hæstv. ráðherra sem gaf vonir um að málið yrði tekið til frekari skoðunar. Þetta er kannski ekki stærsta málið sem rætt hefur verið á Alþingi en það er stórt í hugum þeirra sem vinna við þessi störf af samviskusemi, þ.e. landpóstanna. Það þarf að huga að mannlega þættinum þegar horfst er í augu við breytingar sem stöðugt eiga sér stað í þjóðfélaginu og í sjálfu sér er ekkert við því að segja. Hins vegar fannst mér annað í ræðu hæstv. ráðherra þess eðlis að ég varð svolítið undrandi á því. Mér fannst hann tala um allt aðra þætti eins og póstflutninga með flugi og á lengri leiðum. Það er sjálfsagt að útboðsstefnan eigi við víða en ég tel að þegar við erum að ræða um landpóstana, um flutning á pósti innan sveita, eða á milli nokkurra sveitahreppa, eigi allt annað við en það þegar verið er að flytja póst t.d. frá Reykjavík út um landsbyggðina með flugi eða á lengri vegalengdum. Útboðsstefnan getur ekki verið svo heilög í hugum þessara ágætu herra, sem nú fara með samgöngumálin, bæði í ráðuneytinu og eins hjá Pósti og síma, að ekki sé nauðsynlegt að huga að fleiri þáttum og þá einmitt þeim mannlega þætti sem hv. síðasti ræðumaður gerði að sérstöku umtalsefni í ræðu sinni.
    Fyrir þessa menn er ómögulegt að búa við það öryggisleysi sem hefur ríkt í störfum þeirra miðað við þá útboðsstefnu sem hefur gilt að undanförnu. Ég vil um leið og tíma mínum lýkur, virðulegur forseti, þakka einnig hv. 2. þm. Norðurl. v. fyrir yfirlýsingu hans um að samgn. þingsins ætli að taka þetta mál til sérstakrar skoðunar. Ég tel að full þörf sé á því. Kannski þarf ekki að brýna hæstv. ráðherra frekar því samflokksmenn hans hafa sannarlega gert það í umræðunni.