Störf landpósta

38. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 15:39:20 (1722)


[15:39]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu, margar þær ágætu ræður, sem hér hafa verið fluttar, og þær undirtektir sem málflutningur minn hefur fengið. Ég finn að hér eru menn sem skilja að þarna hefur verið farið rangt að.
    Mér þótti að vísu hæstv. samgrh. taka veikt undir því hann sagði að hann væri ekki andvígur því að endurmeta útboð. Ég skora á hann að skýra það betur hvort hann ætlar ekki að ganga til samninga við félagið.
    Það hefur komið fram, kom bæði fram hjá hæstv. ráðherra og hv. þm. Agli Jónssyni, að menn áttuðu sig ekki á því að eitthvað nýtt væri að gerast í landinu, vinnubrögð og samgöngur að breytast o.s.frv. Þetta vitum við öll, það er gjörbreyting. Þess vegna legg ég áherslu á að landpóstarnir, sem eru töluvert á annað hundrað, hafa margbeðið um það að samningur frá 1984 verði virtur. Þar spyrja þeir þegar þeir skrifa til samgn., með leyfi forseta:
    ,,Hvers vegna neitar Póst- og símamálastofnun að ganga til samninga við landpósta um hagræðingu, skipulagsbreytingar og kjaramál, og ná með þeim hætti betri samningsgerð og farsælli þjónustu fyrir alla?``
    Þeir vita þetta líka og viðurkenna. En á alltaf að brjóta rétt á mönnum? Er þetta frjálshyggjan, blóðug og grimm? Hún skal keyra fólkið niður, keyra það niður, taka af því réttindin, kúga það. Fela svo öðrum störfin, sem ekki ráða við þau, því þeir verða að eta sjálfa sig upp á einhverjum tveimur árum til að standa undir kostnaðinum. Þeir hafa í atvinnuleysinu boðið of lágt.

    En ég fagna því að hæstv. ráðherra viðurkenndi vissulega að stofnunin hefði gengið of langt. Hann hefði gefið henni of rúma heimild. En ég vil fá það alveg skýrt að hann virði þann samning sem er frá 1984 og gangi til samninga um þessi störf eins og var siðurinn. Hér hefur það komið fram í umræðunni, hæstv. forseti, að allir viðurkenna að um ábyrgðarmikið starf er að ræða sem ber að virða.