Störf landpósta

38. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 15:42:05 (1723)


[15:42]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Mér virðist sem síðustu ræðumenn séu farnir að tala í þeim dúr að þá langi fremur til að skamma mig en flytja eitthvað það fram sem mætti þjóna þeirra málstað. Segja má að það komi stundum fyrir þegar ákafinn hleypur í hv. þm.
    Í sambandi við það sem hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir, hv. 2. þm. Vesturl., sagði hér áðan þá vil ég nú í fyrsta lagi segja að ég hef ekki viðurkennt að neitt slys hafi orðið. Í öðru lagi er það rangt hjá hv. þm. að ekki hafi orðið sparnaður af útboðum. Hann hefur vissulega orðið og er metinn á um 18 millj. kr. á ári. Það er því ekki rétt hjá hv. þm. og óþarfi að bera mig fyrir slíku.
    Ég vil í annan stað segja vegna þess sem kom fram hjá Jóhanni Ársælssyni, hv. 3. þm. Vesturl., og ítreka það sem ég sagði að í lögum um aðför, nr. 90/1989, sbr. lög frá 1. júlí 1992, stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Greiðsluáskorun skal send gerðarþola með ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða honum birt af einum stefnuvotti`` o.s.frv. Það er alveg ljóst að lögum samkvæmt ber póstþjónustunni að inna þessi verk af hendi, hvort sem þingmönnum þykir ljúft eða leitt. Það væri kannski fróðlegt að athuga hvort hv. þm. hafi talið að þessi störf sæmdu ekki póstmönnum ef hann hefur þá greitt aðfararlögunum atkvæði sitt á árinu 1992.
    Ég vil að lokum einungis segja að ekki hefur verið brotinn samningur á landpóstum. Landpóstar eru verktakar. Það liggur alveg ljóst fyrir. Þá er auðvitað ekki eðlilegt að þeir hafi réttindi launamanna. Það hefur ekki verið brotinn á þeim samningur.
    Ég vil enn fremur segja eins og ég hef sagt áður að það er velkomið að taka þessi mál upp og fara aftur yfir þau, bæði þau málefni póstsins sem lúta að landpóstum og einnig flutningum á pósti á lengri leiðum og þess samhengis sem er milli þeirrar þjónustu og almennrar þjónustu áætlunar t.d. með áætlunarbifreiðum eða flugvélum.