Fyrirvari utandagskrárumræðna

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 15:45:58 (1725)


[15:45]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Nú á nokkrum dögum hafa farið fram utandagskrárumræður allrar athyglinnar verðar, en samkvæmt þingsköpum er sá háttur hafður á og tveggja klukkustunda fyrirvari talinn nægjanlegur eins og segir hér í 50. gr., með leyfi forseta:
    ,,Í allt að hálftíma á venjulegum fundartíma geta þingmenn fengið tekið fyrir mál utan dagskrár, hvort heldur er í formi upplýsinga eða fyrirspurna til ráðherra. Skal þá þingmaður bera fram við forseta ósk sína hér um eigi síðar en tveimur klukkustundum áður en þingfundur hefst. Í upphafi þingfundar skal forseti tilkynna hvaða mál fyrirhugað er að taka til umræðu utan dagskrár.``
    Nú er það svo, virðulegi forseti, að þessi tími er ærið stuttur. Ef þingmenn vildu taka til máls sem heimilt er þá tvisvar sinnum tvær mínútur, þá eru oft málavextir með þeim hætti að eðlilegt sé að þingmenn fái einhvern tíma til þess að viða að sér upplýsingum og gögnum varðandi málið. Því vildi ég beina því til forseta og forsætisnefndar þingsins að þessi ákvæði þingskapa Alþingis verði skoðuð með það í huga og að markmiði ekki að gera mönnum ókleift að vera með slíkar fyrirspurnir sem þessar, heldur að gefa öðrum þingmönnum möguleika á að taka þátt í umræðunni með því að viða að sér gögnum og upplýsingum þannig að a.m.k. sé sólarhringsfyrirvari á slíkum utandagskrárumræðum sem fram hafa farið nokkuð oft á undanförnum vikum með tilliti til ræðutíma.