Hlutdeild áfengis og tóbaks í grunni framfærsluvísitölu

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 15:52:15 (1728)


[15:52]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Hér fara á eftir svör við þeim spurningum sem hv. þm. kynnti: Fyrsta spurningin var: ,,Hvaða rök eru fyrir því að áfengi og tóbak eru hluti af grunni framfærsluvísitölunnar?``
    Svar: Ástæða þess að áfengi og tóbak eru hluti af grunni vísitölu framfærslukostnaðar er sú að landsmenn neyta bæði áfengis og tóbaks og þau útgjöld eru hluti af heimilis- og einkaneysluútgjöldum þjóðarinnar. Grunnur vísitölunnar er byggður á könnun á neyslu heimila á vöru og þjónustu. Megintilgangur neyslukönnunar er að finna grundvöll fyrir útreikning vísitölunnar, þ.e. að meta vægi hinna ýmsu flokka vöru og þjónustu á grundvelli hennar. Í neyslukönnun er spurt ítarlega um öll heimilisútgjöld og eiga niðurstöðurnar að gefa mynd af meðalútgjöldum heimila í landinu. Enginn greinarmunur er gerður á útgjöldum eftir tilefni þeirra og engin afstaða tekin til þess hvort þau eru nauðsynleg eða ónauðsynleg, gagnleg eða gagnslaus, heilsusamleg eða heilsuspillandi. Í þessu efni er beitt hliðstæðum aðferðum og í öðrum löndum.
    Hlutverk framfærsluvísitölunnar er að mæla mánaðarlegar breytingar á verðlagi vöru og þjónustu sem einstaklingar kaupa til neyslu sinnar. Þær mælingar geta ekki orðið réttar ef tilteknir liðir neysluútgjaldanna eru undanskildir. Vísitalan gæfi þá ekki rétta mynd af meðalbreytingu verðs á þeirri vöru og þjónustu sem landsmenn kaupa. Hún yrði heldur ekki samanburðarhæf við hliðstæðar vísitölur í öðrum löndum. Í þessu sambandi má benda á að heiti vísitölunnar, vísitala framfærslukostnaðar, er í reynd villandi. Vísitölunni hefur um langt árabil ekki verið ætlað að mæla útgjöld sem teljast nauðsynleg til framfærslu heimilis. Þess í stað er henni beitt til að mæla breytingar á verðlagi vöru og þjónustu í heimilisútgjöldum almennt. Heitið ,,vísitala neysluverðs`` gæfi því réttari mynd af því sem vísitalan mælir.
    Önnur spurning var: ,,Er fyrirhuguð endurskoðun á hlutdeild áfengis og tóbaks í grunni framfærsluvísitölunnar?``
    Svar: Í lögum um vísitölu framfærslukostnaðar segir að eigi sjaldnar en á fimm ára fresti skuli fram fara athugun á því hvort þörf sé á endurskoðun á grunni vísitölunnar og þörf á nýrri neyslukönnun.

Neyslukönnun var síðast gerð árið 1990 og fyrirhugað er að gera slíka könnun að nýju á næsta ári. Samsetning framfærsluvísitölunnar ræðst af niðurstöðum neyslukönnunar og eru engar aðrar breytingar fyrirhugaðar á grunni vísitölunnar en þær sem leiða kunna af breyttri neyslusamsetningu samkvæmt niðurstöðum næstu könnunar.
    Þriðja: ,,Telur ráðherra eðlilegt að verð á áfengi og tóbaki hafi áhrif á framfærsluvísitöluna?``
    Svar: Já. Ég tel það bæði eðlilegt og óhjákvæmilegt. Vísitala framfærslukostnaðar á að endurspegla almenna breytingu á verðlagi einkaneyslu. Áfengi og tóbak er hluti af einkaneyslu Íslendinga hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Það er því óhjákvæmilegt að vísitalan mæli verðbreytingar áfengis og tóbaks á sama hátt og aðrar verðbreytingar. Að fella niður þessa eða aðra liði neyslunnar við gerð vísitölunnar og breyta þannig út af meginreglunni að mælingin taki til allra flokka vöru og þjónustu sem einstaklingar neyta væri að gefa ranga mynd af verðbreytingunni. Þetta væri óásættanlegt og hlyti að veikja tiltrú almennings á gerð vísitölunnar og notkun hennar sem mælikvarða á almennar verðlagsbreytingar.