Hlutdeild áfengis og tóbaks í grunni framfærsluvísitölu

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 15:59:16 (1732)

[15:59]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég skil þau sjónarmið sem hér koma fram og auðvitað er það ekki markmið eins eða neins að vísitalan hafi neikvæð áhrif á baráttu manna gegn reykingum eða áfengisnotkun. En vísitalan á að vera hlutlaust mælitæki og ekki er hægt að losa sig við hana eftir því áliti sem við kunnum að hafa hvert og eitt á því hvað sé hollt og hvað sé óhollt. Við getum ekki til að mynda farið að ákveða að þar sem hvítbrauð sé óhollara heldur en grófari brauð, að hætta að mæla hvítu brauðin í vísitölunni og svo koll af kolli. Hvar ætla menn að láta staðar numið? Þetta er mælikvarði sem verður að vera hlutlaus og getur ekki dregið taum einnar vöru gagnvart annarri. En það þarf ekki að hafa nein neikvæð áhrif í sjálfu sér á vilja okkar til baráttu gegn ofnotkun á áfengi eða tóbaki. Ef menn vildu hins vegar ekki una því að slík vara væri mæld, þá ættu menn að banna slíka vöru. Við notum ekki í mælikvarðann vörur sem bannað er

að nota, en eru þó notaðar og þekkt er að slíkar vörur eru notaðar.