Hlutdeild áfengis og tóbaks í grunni framfærsluvísitölu

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:00:26 (1733)


[16:00]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að kjarni málsins sé sá sem hv. 5. þm. Norðurl. e. ásamt fyrirspyrjanda benti hér á, að við erum einfaldlega að tala um að það hefur staðið því fyrir þrifum að hægt væri að hækka verðið á tóbaki og áfengi að þessar vörur eru inni í vísitölunni og vega þetta þungt. Hér er um raunverulegan vanda að ræða og ég vil gera mikinn greinarmun á almennri neyslustefnu og þeim efnum sem hafa sannanlega þótt einna skaðlegust allra þeirra sem eru á boðstólum löglega hér á landi. Ég held að full ástæða sé til þess að taka undir það sem fram hefur komið hér að auðvitað er þetta framkvæmanlegt svo framarlega sem vilji er fyrir því. Það hefur komið fram í umræðunni með óyggjandi hætti að þetta virðast aðrar þjóðir geta framkvæmt og okkur ætti ekki að vera það ofviða þar af leiðandi. Ég vil biðja hæstv. forsrh. í allri vinsemd að velta þessu örlítið fyrir sér í viðbót og snúast á sveif með þeim sem vilja gjarnan að það verði tekið á þessum málum einnig þar sem vísitalan er annars vegar.