Reglur LÍN um nám foreldra fatlaðra barna

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:08:18 (1736)


[16:08]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans. Mér þykir að vísu miður að það skuli ekki vera sjálfkrafa sömu réttindi og fatlaðir námsmenn fá vegna sinnar fötlunar út á fötlun barna vegna þess að það er vitað mál að það er gífurlegt álag á þær fjölskyldur sem annast fötluð börn. Þar af leiðandi finnst mér að þetta eigi að vera réttur en ekki möguleiki til að víkja frá gildandi reglum.
    Miðað við upptalningu hæstv. menntmrh. kom með var fyrst og fremst verið að tala um veikindi barna. Nú er fötlun ekki veikindi heldur það ástand sem varir og hverfur ekki. Down's syndrome er gott dæmi um það. Börn hætta ekki að hafa Down's syndrome, þau eru fædd með það og því verður áfram til að dreifa. Mér þykir það ekki alveg skýrt á svari ráðherra hvort t.d. foreldri sem á barn með Down's syndrome muni fá jákvæða úrlausn ef það sækir um að fá að lengja sinn námstíma. Mér finnst það ekki alveg óyggjandi. Ég vona að það hafi verið hans meining að þetta eigi að vera fullgild ástæða. En mér þætti vænt um að hæstv. ráðherra gæti tekið af skarið með nákvæmlega þetta dæmi því ég óttast að þetta sé hópur sem er kannski ekki mjög duglegur að berjast fyrir sínum réttindum. Það er í nógu mörg horn að líta með þunga fjölskyldu og mikið álag og það þarf að vera tiltölulega greið leið þannig að yfirvöld sýni þann skilning sem þörf er á.