Fiskvinnsluskólinn

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:24:37 (1743)


[16:24]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég svara spurningum hv. þm. með þessum hætti:
    Í mars 1992 skipaði menntmrn. nefnd til þess að athuga hvernig mætti efla Fiskvinnsluskólann í Hafnarfirði. Nefndin skilaði tillögum sínum til ráðuneytisins í apríl 1993. Þar kemur fram að nefndin telur nauðsynlegt að gera miklar breytingar á fiskvinnslunáminu. Jafnframt leggur nefndin til að ef ekki takist að koma þessum breytingum á fyrir haustið 1994 þá verði skólanum lokað í eitt ár og tíminn notaður og það fjármagn sem sparast til að undirbúa breytingarnar. Ráðuneytið fór að þessum tillögum nefndarinnar.
    Ástæðan fyrir ofangreindri nefndaskipan var sú að fram hafði komið mikil gagnrýni á skólann, bæði frá nemendum og fulltrúum atvinnulífsins sem töldu að skólinn veitti ekki nægilega góða og hagnýta menntun til starfa í atvinnulífinu. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að þessi gagnrýni væri á rökum reist og þörf væri á breytingum.
    Eftir því sem ráðuneytinu er kunnugt hefur ekki verið erfitt fyrir fólk útskrifað úr Fiskvinnsluskólanum að fá vinnu að loknu námi.
    Ég skipaði nefnd í desember 1993 í samráði við sjútvrh. til að vinna að endurskipulagningu menntunar á sviði sjávarútvegs í landinu og treysta samstarf fræðsluyfirvalda og hagsmunaaðila á þessu sviði. Nefndin skilaði tillögum sínum í septembermánuði sl. og er undirbúningur að framkvæmd þeirra að hefjast.
    Ein af tillögum nefndarinnar varðar einmitt Fiskvinnsluskólann í Hafnarfirði. Í samantekt á tillögunum, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nám í Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði verði endurskipulagt í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og lög um skólann endurskoðuð. Námið byggi á almennu framhaldsskólanámi og/eða námi á hinni nýju sjávarútvegsbraut og verði sérhæft matvælafræðinám með áherslu á vinnslu sjávarafurða.``
    Og vegna þess að hv. fyrirspyrjandi las upp úr athugasemdum við fjárlagafrv. þá ætla ég að ljúka við það sem segir í þeirri málsgrein sem hv. þm. las upp úr. Viðbótin er þessi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hins vegar er fjárveiting til rekstrar á haustönn á næsta ári og miðast hún við núverandi rekstur þar sem niðurstaða nefndarinnar liggur ekki enn fyrir.``
    Nú liggur niðurstaða nefndarinnar fyrir og eins og ég sagði er verið að vinna úr tillögum þessarar nefndar sem skipuð var til þess að endurskoða sjávarútvegsnám í landinu.
    Ég vonast til að þeirri úrvinnslu í ráðuneytinu ljúki fyrir áramót og þá munu tillögur ráðuneytisins verða lagðar fram.