Fiskvinnsluskólinn

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:28:11 (1744)


[16:28]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Á Íslandi hefur mikið verið gagnrýnt hvernig við sinnum fræðslumálefnum þessa undirstöðuatvinnuvegar okkar sem er fiskvinnslan. Mér er í fersku minni hversu mikil breyting varð á þegar Fiskvinnsluskólinn var opnaður á sínum tíma og nemendur sem þaðan höfðu fengið menntun sína komu út í atvinnulífið.
    Mig langaði að gera athugasemd varðandi svar menntmrh. Ég gat ekki betur heyrt á því svari en að það eigi að loka skólanum til þess að fá peninga til þess að endurskipuleggja. Ég verð að lýsa furðu minni á því metnaðarleysi sem lýsir sér í því að þessi nauðsynlega menntun skuli ekki fá, sé þörf á endurskipulagningu, fjárveitingu til þess en skólanum sé ekki lokað til þess að geta á þann hátt fjármagnað þær breytingar sem nauðsynlega eru taldar.