Fiskvinnsluskólinn

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:29:23 (1745)


[16:29]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það eru að mörgu leyti nokkuð fróðlegar upplýsingar sem koma fram í þeirri skýrslu sem hæstv. menntmrh. las upp úr um að menntun í Fiskvinnsluskólanum sé ekki nægjanlega góð, hún sé ekki nægjanlega hagnýt. Nú veit ég ekki hverjir eru höfundar þessarar ágætu skýrslu en hafa menn farið um landið og kynnt sér hvaða menn það eru sem eru í forsvari og í fararbroddi í íslenskum sjávarútvegi, framkvæmdastjórar, verkstjórar í fiskvinnslustöðvunum vítt og breitt um landið þar sem stórkostlegir hlutir eru að eiga sér stað? Og halda því svo fram að menntunin sem menn hafa fengið í þessum skóla sé ekki nógu hagnýt og ekki nógu góð.
    Ég tek hins vegar undir að þar er margt sem má breyta. M.a. hef ég flutt tillögu ásamt fleiri þingmönnum um að sameina Fiskvinnsluskólann Stýrimannaskólanum og Vélskólanum í Reykjavík til að nýta betur kennslugögn, tækjabúnað og húsnæði vegna þess að staðreyndin er sú að Fiskvinnsluskólinn í Hafnarfirði býr og bjó við skammarlega lélega aðstöðu hvað bóknám snerti, þ.e. húsakynni. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, ég er alveg að ljúka máli mínu. En að ætla að loka skólanum af því að menn bíða eftir því að hann verði endurskipulagður er náttúrlega því miður, virðulegi forseti, að mínu viti hreint rugl.