Fiskvinnsluskólinn

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:35:52 (1749)


[16:35]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Hv. þm. Guðrún J. Halldórsdóttir kom kannski að kjarna málsins þegar hún sagði að standi skóli ekki undir þeim væntingum, sem til hans eru gerðar, þá bregst kannski aðsóknin í hann og ekki verður rekinn skóli nema nemendur vilji koma í viðkomandi skóla. Það hefur verið að gerast. Ég greindi frá því í svari mínu að Fiskvinnsluskólinn í Hafnarfirði hefði orðið að þola býsna óvægna gagnrýni á undanförnum árum, ekki síst frá nemendum skólans, og nemendum hefur þar fækkað mjög.
    Af því að hv. þm. Finnur Ingólfsson minntist á aðstöðu í skólanum til bóknámsins vil ég rifja það upp að það var fyrir atbeina minn og beiðni skólastjórnarinnar að sú aðstaða var stórlega bætt með því að keypt var sérstakt hús sem flutt var á svæði skólans fyrir tveimur árum eða svo.
    Spurt var um höfunda skýrslunnar. Þeir eru Jón Ásbergsson, formaður nefndarinnar, og með honum í nefndinni voru Björn Grétar Sveinsson, Ágúst H. Elíasson, Helgi Kristjánsson, Stefán Baldursson, skrifstofustjóri í menntmrn., og Pétur Bjarnason --- til að fyrirbyggja misskilning, ekki hv. alþm.
    Hv. þm. Svavar Gestsson spurði hvar skólinn ætti að vera í fræðslukerfinu. Ég geri ráð fyrir að í því efni verði farið að tillögum nefndarinnar sem ég las upp áðan að nám í Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði verði endurskipulagt í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og lögin um skólann endurskoðuð. Ég geng út frá því sem gefnu að Fiskvinnsluskólinn í Hafnarfirði muni starfa áfram og lög um hann verði endurskoðuð.