Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:40:30 (1751)


[16:40]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Iðkun íþrótta hefur vissulega hlotið aukið vægi í þjóðfélagi okkar og rannsóknir um gildi íþrótta hafa gefið mjög jákvæðar niðurstöður eins og t.d. nýleg rannsókn Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála ber með sér.
    Þegar rætt er almennt um íþróttir eiga barna- og unglingaíþróttir og almennar íþróttir sívaxandi fylgi að fagna. Afreksíþróttir eru þýðingarmikill þáttur í almennri uppbyggingu íþrótta og afrek á sviði íþrótta hvetja sífellt fleiri til þátttöku í fjölbreytilegu íþróttastarfi. Flestar þjóðir telja einnig ýmis afrek á íþróttavettvangi bestu og kannski ódýrustu landkynninguna sem völ er á og það er rökrétt fyrir okkur Íslendinga að meta að verðleikum kynningar- og áróðursgildi afreksíþrótta. Því er rökrétt að opinberir aðilar veiti aukinn stuðning við afreksíþróttir eins og Alþingi hefur raunar gert t.d. með stuðningi við Ólympíunefnd Íslands og Ólympíunefnd fatlaðra.
    Forustumenn íþrótta hafa að undanförnu þingað um tilhögun stuðnings við afreksíþróttir og lagt á það áherslu að stofna sérstakan afreksíþróttasjóð sem hljóti stuðning ríkis, sveitarfélaga, íþróttahreyfingarinnar og fleiri aðila. Menntmrn. hafa borist upplýsingar um þessa stefnumótun og nál. um afreksíþróttastefnu Íþróttasambands Íslands þar sem mál þessi eru nánar skýrð.
    Í nál. menntmn. Alþingis frá 4. maí 1994 þar sem fyrrnefndu frv. var vísað til ríkisstjórnarinnar er á það bent að samið hafi verið frv. til nýrra íþróttalaga þar sem m.a. er kveðið á um íþróttasjóð og sérstakan stuðning við afreksfólk í íþróttum.
    Frv. þetta til nýrra íþróttalaga er nú og hefur raunar verið um nokkuð langt skeið til athugunar í menntmrn. Ég hef efasemdir um að það takist að afgreiða málið á því Alþingi sem nú situr án þess að ég telji það þó útilokað en umfjöllun um málið er því miður ekki að fullu lokið í ráðuneytinu.
    Ég tel eðlilegt að kannað verði hvort ekki megi samræma hugmyndir sem fram koma í frv. því sem vísað var til ríkisstjórnarinnar, um sjóð til að styrkja efnilega íþróttamenn, þeim hugmyndum sem fram komu við endurskoðun íþróttalaga og um afreksíþróttasjóð íþróttahreyfingarinnar.
    Mjög líklegt verður að telja að takist samstaða um þá stefnumótun verði stuðningur við afreksfólkið skipulagðari og markvissari.