Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:47:56 (1754)


[16:47]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Það er kannski ekki tími til að ræða sérstaklega um íþróttasjóðinn. Það gefst áreiðanlega tækifæri til þess við frekari umræðu um fjárlagafrv. En bara til að halda því til haga þá er ekki gert ráð fyrir framlagi í íþróttasjóð í fjárlagafrv. fyrst og fremst með þeirri röksemd að þau viðfangsefni sem íþróttasjóður hefur styrkt eru í raun komin yfir til sveitarfélaganna. ( GÁ: Þetta er rangt ...) Nei, þetta er ekki rangt, hv. þm. Allar byggingar íþróttamannvirkja eru færðar yfir til sveitarfélaganna. Þetta veit þingmaðurinn. Ég kann hins vegar ekki alveg þá sögu hvers vegna þessi liður var skilinn eftir hjá ríkinu þar sem hann hefur verið til þessa.
    Ég hef svo sem engu við þetta frekar að bæta öðru en því að ég tek að sjálfsögðu áskoruninni frá hv. þm. Guðna Ágústssyni að nýta tímann til vorsins sem allra best, m.a. til þess að reyna að fá lausn á þessu máli.