Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:56:03 (1758)


[16:56]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef þá svörin þannig eins og ágætum fyrrv. forseta --- að vísu ekki sameinaðs þings heldur neðri deildar --- var tamt að segja, að svörin verða þá veitt í einu slengi.
    Í fyrsta lagi spyr hv. þm. hvort reglugerðir um merkingu næringargildis matvæla og merkingu auglýsingu og kynningu matvæla gildi einnig um vörur sem framleiddar eru utan Evrópska efnahagssvæðisins. Svarið við þessum báðum spurningum er já. Svo er.
    Hv. þm. spyr hvaða áhrif það hafi á samkeppnisstöðu og vöruverð. Að mati umhvrn. verða áhrifin á samkeppnisstöðu og vöruverð óveruleg. Innflutningur matvæla frá ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu eru að verðmæti 6.080 millj. ísl. kr. en tæpar 2.330 millj. ísl. kr. frá ríkjum utan EES-svæðisins. Hlutdeild EES-ríkja er því um 65% og ríkja utan svæðisins um 35%. Þar af var hlutur Bandaríkjanna ekki nema um 11%. Þegar íslenskum matvælum er síðan bætt við er ljóst að verðmæti innfluttra matvæla sem hlutdeild af heildarframboði hér á markaði fellur verulega en ætla má að um helmingur matvæla sem eru hér á markaði sé íslensk framleiðsla. Stór hluti af vörum frá ríkjum utan EES-svæðisins uppfylla þessar reglur nú þegar, t.d. allar þær vörur frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem fluttar eru inn frá Evrópu. Margir innflytjendur merkja þar að auki á íslensku og gildir það ekki síst um þekkt vörumerki sem hafa háa markaðshlutdeild og hafa komið frá ríkjum utan hins Evrópska efnahagssvæðis.
    Þá má nefna innflutning á matvælum sem ekki eru í umbúðum, svo sem grænmeti og ávexti.
    Auðvitað er viðbúið að þessar reglur geti leitt til ákveðinna erfiðleika þegar þær koma til framkvæmda en innflytjendur ættu að geta fundið lausnir, t.d. með ummerkingu eða með límmiðamerkingum eins og þeir gerðu svo að dæmi sé tekið þegar nauðsynlegt þótti að setja sérstakar viðvaranamerkingar á innflutt þvottaefni.
    Mörg rök mæla með því að staðið verði fast við framkvæmd merkingarreglna gagnvart þriðju ríkjum og þá eru menn fyrst og fremst með hagsmuni neytenda í huga. Ef matvörur verða markaðssettar í umbúðum með mismunandi merkingum má segja að hagsmunir neytenda séu þá fyrir borð bornir því að samræming merkingarreglna er mikilvæg til að tryggja að neytendur fái fullnægjandi upplýsingar um samsetningu og eðli matvæla. Þá má einnig spyrja hvaða samkeppnisskilyrði verið væri að skapa gagnvart íslenskum iðnaði þegar gerð er sú krafa að framleiðsla hans þurfi að uppfylla EES-kröfur ef innflutt samkeppnisvara frá landi utan EES þyrfti þess ekki. Á sama tíma þyrftu íslenskir útlfytjendur að uppfylla kröfur þessara sömu ríkja þegar vörur eru fluttar út héðan á aðra markaði.
    Það skal taka fram eins og ég hef raunar þegar komið orðum að að það kann að vera að framkvæmdaörðugleikar verði í byrjun en þá verður reynt að leysa m.a. í samráði við innflytjendur, innlenda framleiðendur og heilbrigðiseftirlitið í landinu þannig að framkvæmdin geti verið sem næst hnökralaus. Umhvrn. hefur sett sig í samband við þessa aðila og óskað eftir góðu samstarfi við þá um framkvæmd þessara mála.