Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 17:04:18 (1761)


[17:04]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég hef aldrei litið öðruvísi á en svo að ég sé þingmaður allra þeirra Reykvíkinga sem mig vilja kjósa og heildsalar hafa þar ekki verið nein undantekning. Þannig að mér er þá heiður einn að vinna loksins eitthvert gagn í þeirra þágu. Það var þá mál til komið.
    En viðbrögðin frá hv. þm. Sjálfstfl. eru svolítið vandræðaleg í þessu máli og ástæðan er ósköp einfaldlega sú að ég hygg að þeir viti ekki alveg hvernig á að taka á þessu. Það er staðreynd að menn hafa af þessu verulegar áhyggjur og ég ætla að leyfa mér að vitna hér í bréf frá Íslensk/Ameríska, það eru menn sem heita heildsalar og ég er einungis stolt af því að tala þeirra máli hér, þeir eru Reykvíkingar líka. Þeir enda hér bréf, skrifað 21. okt., á þennan hátt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við mótmælum eindregið þeim viðskiptahindrunum sem reglugerð númer 588 frá 1904 hefur í för með sér gagnvart USA og felum Félagi íslenskra stórkaupmanna að berjast fyrir leiðréttingu á þeirri gróflegu mismunun sem hún hefur í för með sér. Bandarískar vörur eiga sér langa söluhefð á Íslandi og íslenskir neytendur eiga kröfu á að hagsmuna þeirra sé gætt í þessu máli.``
    Þetta held ég satt að segja að sé málið í hnotskurn.
Og það er alveg rétt sem hv. 5. þm. Reykv. sagði áðan, það er nefnilega meira en við höldum af vörum sem koma frá Bandaríkjunum t.d. til Íslands sem ekki fara víða á evrópskum markaði. Þetta eru einmitt vörur sem margar fjölskyldur kaupa gjarnan vegna þess að verðið er tiltölulega gott og gæðin í lagi. Ég er hér með mikinn lista yfir þessar vörur sem ég hef því miður ekki tíma til að telja upp. En það er alveg ljóst að hér eru menn með áhyggjur af þessu og ég er jafnsammála hv. 5. þm. Reykv. að þetta er bara byrjunin. Aðeins byrjunin á því að nú eiga menn eftir að lesa allar reglugerðirnar sem þeir eru búnir að samþykkja og uppgötva að þær geta valdið okkur stórskaða í fleiri tilvikum heldur en þær verða okkur að gagni.
    Annars þakka ég hæstv. ráðherra fyrir að hlaupa í skarðið fyrir hæstv. umhvrh., sem augljóslega hafði ekki lesið reglugerðirnar vel.