Veðurathugunarstöð á Þverfjalli

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 17:22:26 (1769)


[17:22]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég skil auðvitað áhuga þingmanna Vestf. fyrir því að það sé gætt fyllsta öryggis á hinum erfiðu fjallvegum sem eru þar vestra. En vegna orða hv. þm. er samt óhjákvæmilegt að vekja athygli á því að það er auðvitað allt annað þó veður frá þessari veðurathugunarstöð á Þverfjalli berist ekki yfir sumarmánuðina eða fram á haustið heldur en yfir myrkasta tíma ársins þegar allra veðra er von.
    Ég ítreka það sem ég sagði áðan að Vegagerðin tók upp viðræður strax í septembermánuði um að textavarpið yrði á nýjan leik tekið upp í sjónvarpinu. Og ég held að það sé líka alveg nauðsynlegt að taka það fram að þessi þáttur í rekstri textavarpsins nýtur mikilla vinsælda, er mikið notaður, sem sýnir þá miklu þörf á að styrkja þessa starfsemi. Auðvitað stendur vilji Vegagerðarinnar til þess að gera það. Auðvitað er það svo að flugmenn geta fengið upplýsingar um veður og annað því líkt hjá Veðurstofunni hvað sem textavarpinu líður og þó sjónvarpið sé ekki alltaf til staðar.
    Hins vegar, eins og ég sagði, þá mun ég hafa sambandi við flugfélagið Erni og spyrjast fyrir um það hvort eitthvað sé í ólagi sem auðveldlega mætti lagfæra, einhver tregða í kerfinu, sem kemur í veg fyrir að það fái nægilegar upplýsingar um veðurskilyrði og annað.