Greiðslur atvinnuleysisbóta til sjálfstætt starfandi einstaklinga

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 17:27:48 (1771)


[17:27]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Hinn 18. nóv. sl. voru þessar viðmiðunarreglur gefnar út. Það er skv. 9. gr. reglugerðar nr. 304/1994 sem stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs skal semja viðmiðunarreglur um framkvæmd 4.--7. gr. reglugerðarinnar sem staðfestar skulu af ráðherra.
    Í samræmi við ákvæðið voru slíkar reglur samþykktar af stjórn Atvinnuleysistryggignasjóðs 3. okt. sl. og staðfestar af félamrh. 18. nóv. sl. Reglurnar munu birtast í B-deild Stjórnartíðinda.
    Eftirfarandi nýmæli eru í reglunum: Leiðbeiningar um hvað sé að mati stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs fullnægjandi trygging fyrir því að sjálfstætt starfandi hafi hætt starfsemi. Samkvæmt reglunum telst það m.a. fullnægjandi trygging að þeir sem hafa notað vélknúin ökutæki í atvinnurekstri hafi lagt inn númer þeirra eða afskráð þau hjá Bifreiðaskoðun Íslands og að þeir sem hafa notað skip og báta í atvinnurekstri hafi lagt inn haffæriskírteini eða skoðunarvottorð hjá Siglingamálastofnun ríkisins.
    Viðmiðunarreglu um bótarétt manns sem hefur haldið áfram persónubundnu starfi við sjálfstæðan atvinnurekstur eftir að hafa byrjað í launavinnu og sækir um atvinnuleysisbætur eftir að hafa misst launavinnuna samkvæmt reglunum skal miða við að hann geti átt bótarétt ef hreinar tekjur af atvinnurekstrinum og reiknuð laun fyrir þann aðila sem hefur starfað að fullu við reksturinn nema lægri fjárhæð en atvinnuleysisbætur.
    Sú regla er sett að leggja skuli fram vottorð skattstofu um heildarveltu næstliðinna þriggja reikningsára þegar maður hefur afhent nákomnum rekstur, sækir um bætur en samkvæmt 3. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar getur slíkur aðili átt bótarétt ef hann hefur afhent öðrum nákomnum en maka reksturinn og sýnt þykir að reksturinn þegar afhendingin átti sér stað framfleytti aðeins þeim sem tóku við rekstrinum. Skal í því sambandi miða við að dregið hafi úr veltu á hvoru undangenginna tveggja reikningsára er nemi samtals að lágmarki 40% yfir tímabilið.
    Sú regla er sett varðandi heimild til að hefja rekstur að nýju innan tólf mánaða án þess að sæta viðurlögum skv. 8. gr. reglugerðarinnar að viðkomandi skuli undirrita yfirlýsingu um að hann telji að rekstrargrundvöllur sé fyrir atvinnustarfsemi sinni og hann skuli leggja fram verkefnaáætlun sem nái yfir a.m.k. þrjá mánuði.