Styrkur til markaðsátaks í EES-löndunum

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 17:33:54 (1774)

[17:33]
     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram fsp. á þskj. 207 til utanrrh. um styrk til íslenskra fyrirtækja til markaðsátaks í EES-löndunum. Í fjárlögum ársins 1994 er gert ráð fyrir því að 50 millj. kr. skuli varið til markaðsátaks í EES-löndunum og um úthlutun þeirra fjármuna skuli farið samkvæmt ríkisstjórnarákvörðun enda er þessi fjárlagaliður undir fjárlagaliðnum 09.990 sem eru ríkisstjórnarákvarðanir. Það ber auðvitað að fagna því að slíkan styrk skuli eiga að veita til íslenskra fyrirtækja til að markaðssetja sína vöru á þessu stóra markaðssvæði.
    Samkvæmt fréttum hefur verið ágreiningur um það með hvaða hætti þessi úthlutun skuli fara fram og hverjir skulu fá þessa styrki. Meðal annars hefur það heyrst að hluti af styrkupphæðinni, þessum 50 millj. kr., hafi átt að ráðstafa til menningarfulltrúa eða sendiráðsins í London til að standa undir kostnaði við listahátíð sem þar var haldin. Því hef ég lagt fram fyrirspurn til utanrrh. og ekki kannski einvörðungu af því heldur einnig að íslensk fyrirtæki sem búast við þessum styrk eru orðin langeygð eftir því hvort styrknum verði ekki úthlutað eða þessari upphæð verði úthlutað. Því hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. utanrrh. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
  ,,1. Hvenær má vænta að búið verði að úthluta þeim 50 millj. kr. sem Alþingi samþykkti á síðasta þingi að veita íslenskum fyrirtækjum til markaðsátaks í EES-löndunum?
    2. Verður ekki allri upphæðinni, þessum 50 millj. kr., varið til íslenskra fyrirtækja?``
    Nú hef ég, virðulegur forseti, einnig þær fréttir að eftir að þessi fyrirspurn kom fram hafi úthlutun á þessum 50 millj. kr. átt sér stað og því ber auðvitað að fagna. En því miður, það sá ég ekki fyrir þegar ég lagði fyrirspurnina fram, hef ég fengið þær óstaðfestu fréttir einnig og það er leitt að þurfa að tala í þessum stíl, að þessum 50 millj. kr. öllum hafi ekki verið úthlutað heldur hafi 2 millj. kr. verið skildar eftir og vil því bæta við spurningu til hæstv. utanrrh.: Stendur ekki til að úthluta þessum 2 millj., ef svo er að þær séu til í sjóði enn, til íslenskra fyrirtækja?