Styrkur til markaðsátaks í EES-löndunum

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 17:43:23 (1777)


[17:43]
     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir svarið. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni að úthlutun skuli hafa farið fram á þessum fjármunum og má kannski segja að úthlutunin hafi farið fram fyrir nokkuð löngu síðan, en ágreiningurinn hafi staðið um það hvert þetta ætti nákvæmlega að fara og það dróst úr hömlu að fyrirtækin fengju tilkynningu um að þau hefðu fengið styrk. Það er gleðilegt að það er nú orðið klárt og sérstaklega er ég ánægður með ef svo hefur farið að þessi fyrirspurn hafi ýtt við mönnum í þeim efnum.
    En eftir stendur að það eru 2 milljónir króna sem menn hafa ekki treyst sér til að úthluta þrátt fyrir ef ég skil hæstv. utanrrh. rétt að nefndin sem átti að sjá um framkvæmdina hafi verið búin að ná samkomulagi um þessar 2 millj. en ágreiningurinn er í ríkisstjórninni um hvert þessum 2 millj. kr. skuli varið. Það stendur eftir. Ég ætla ekki að leggja mat á það með hvaða hætti sé skynsamlegast að ráðstafa þessari upphæð. Aftur á móti held ég að það sé ekki nokkur vafi að tilgangurinn með þessum fjármunum sem Alþingi samþykkti var ekki sá að veita þeim að hluta til í sendiráðin og þá opinberu starfsemi sem þar fer fram. Þessir fjármunir voru ætlaðar íslenskum fyrirtækjum til þess að þau gætu farið í markaðsátak á þessu svæði en ég viðurkenni það að aðstoð sendiráða getur auðvitað verið mjög mikilvæg í þessu efni og kann að vera að þetta þurfi að greiða. En þetta er reyndar eins og annað sem þessi ríkisstjórn er með. Það er ekki samkomulag um þessar 2 milljónir frekar en þessa 2 milljarða í heilbrigðismálunum sem út af standa.