Hækkun skattleysismarka

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 17:50:17 (1780)

[17:50]
     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 219 að leggja fram svohljóðandi fsp. í tveimur liðum til hæstv. fjmrh.:
  ,,1. Hvert yrði tekjutap ríkissjóðs ef skattleysismörk fólks, 67 ára og eldra, yrðu hækkuð í 70.000 kr. á mánuði?
    2. Er ráðherra tilbúinn að beita sér fyrir slíkri breytingu?``
    Menn muna að áður en staðgreiðslukerfið var tekið upp var síðasta starfsár þessa fólks skattfrítt og ég tel að það hafi verið mjög gott mál. Menn bentu reyndar á þegar staðgreiðslukerfið var til umræðu að það mætti hugsanlega halda því til streitu en menn töldu annmarka á því af tæknilegum ástæðum sem ég er reyndar ekki sammála. Hins vegar tel ég að við eigum að sýna þessu fólki það þakklæti sem það á skilið fyrir framlag þeirra til þjóðarinnar með einhverjum hætti. Hvort þetta er endilega rétti mátinn skal ég ekki um segja. Það er kannski ástæðan fyrir fyrirspurninni að ég vil komast að raun um það hvort við höfum efni á að fara slíka leið eða ekki.
    Menn þekkja auðvitað stöðu gamla fólksins. Það hefur engar atvinnutekjur og það hefur aukin útgjöld og má þar benda sérstaklega á lyfjakostnaðinn. Það er alveg ljóst að kjör þessa fólks í dag eru óviðunandi fyrir velferðarþjóðfélag eins og íslenska þjóðfélagið vill gjarnan kalla sig.
    Þess vegna hef ég leyft mér að leggja þessa fsp. fram. Í fyrsta lagi hvort ráðherra sé tilbúinn að beita sér fyrir slíku og í öðru lagi hvort við höfum ráð á því.