Hækkun skattleysismarka

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 17:58:50 (1783)


[17:58]
     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja vegna þess að hér var vitnað til að á Vesturlöndum væru fyrirmyndirnar til staðar og kannski ekki síður í ljósi þess að ég hef líka lagt fram fyrirspurn um mismunandi þrep í tekjuskatti, þá var ég að koma fyrir nokkrum klukkutímum frá fyrirheitna landinu, Bandaríkjunum, og þar er tekjuskattskerfið í þremur þrepum. Það hefur verið algjört tabú að ræða um slíka hluti hér vegna þess að það væri svo flókið og erfitt í framkvæmd. Ég vildi láta þetta koma fram að meira að segja þar er þetta þannig.
    Ég vil benda á, af því að hér er talað um tekjujöfnun, að það er vafasamt að tala um þetta sem slíkt og leggja það til jafns við aðra launþega vegna þess að gamla fólkið hefur enga möguleika á því að afla sér neinna tekna. Það labbar ekki í vinnu nokkurs staðar úti í bæ og nær sér í aukatekjur til þess að glíma við sín vandamál. Þess vegna verð ég að taka undir það sem mér fannst skína í gegn í máli hæstv. ráðherra, að hann var tilbúinn til að leita leiða til þess að létta byrðarnar af þessum hópi fólks. Það er ánægjuefni þó ég taki ekki undir það að afnám tvísköttunar á lífeyrisgreiðslur sé liður í því. Það er einfalt réttlætismál að laga það. Það er bara rangur hlutur sem er inni í okkar skattkerfi þegar um margsköttun er að ræða. Þannig að ég fagna því að ráðherrann sé tilbúinn að beita sér fyrir því og skoða hvort aðrar leiðir eru til staðar. Hins vegar finnst mér þessari upphæð sem ráðherrann nefndi hér áðan, 900 millj. kr., vel varið til þessa hóps fólks. Mér finnst að þetta fólk eigi það skilið af okkur hér að við beinum slíkum fjármunum í þá átt. Og úr því að upphæðin er ekki meiri en þessi og úr því að við erum enn þann dag í dag að eyða hátt í 2 milljörðum kr. í ferðakostnað, risnu, dagpeninga og annað slíkt, þá segi ég alveg hiklaust: Við höfum efni á því. Þetta er bara að spurningin um það hvernig við ætlum að nota fé þjóðarinnar, hvernig við ætlum að deila því út. Ef menn ætla að stilla þessu upp hvort á móti öðru, ferðapeningum, dagpeningum, risnu og öðru slíku á móti því að sýna þessu fólki það þakklæti sem það á skilið af okkar hendi, þá segi ég hiklaust: Skerum þann lið niður. Við erum enn þann dag í dag að borga mökum, t.d. ráðherra, peninga fyrir að dinglast með til útlanda. Ég skil ekki svona. Ég var að koma úr ferð núna og það situr eftir í vasa manns peningar. Þetta á ekki að vera tekjuöflun fyrir þingmenn eða aðra sem eru að ferðast á dagpeningum. Þetta kerfi má skera upp og þessum peningum má vísa í þennan farveg.