Yfirstjórn löggæslu á einstökum svæðum

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 18:28:08 (1794)


[18:28]
     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. dóms- og kirkjumrh. fyrir þessi svör sem voru ágæt. Ég heyri að við erum í raun og veru alveg sammála í þessu efni. Mér er það auðvitað alveg ljóst að það er ekkert einfalt mál að skilja yfirstjórn lögreglunnar þannig í tvennt að hluti hennar sé undir stjórn sveitarfélaga og hluti hennar sé undir stjórn ríkisins. Þess vegna er auðvitað skynsamlegra að koma á samvinnunefndum eins og gert var ráð fyrir í því frv. sem hæstv. ráðherra nefndi. Ég tel líka að sú stefna að þróa grenndarstöðvar með þeim hætti sem gert hefur verið hér í Reykjavík sé skynsamleg nálgun. Ég legg jafnframt á það áherslu að ástandið í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu í þessum efnum að því er varðar öryggi almennings á götum á nóttunni um helgar er óviðunandi. Það er algerlega óviðundandi. Það er sannast að segja með þeim hætti að fólk fer ekki eitt út á götu á miðbæjarsvæðinu á nóttu um helgar. Það er orðið mjög slæmt merki, ljótt merki. Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til að taka á þessu máli með

myndarlegum hætti. Það mætti auðvitað í fyrsta lagi velta því fyrir sér hvort fjármunir þeir sem lögreglan í Reykjavík hefur eru nægilega miklir, hvort við höfum ekki skorið þar of mikið niður.
    Í öðru lagi vil ég hvetja hæstv. ráðherra til að setja í gang endurskoðun á frv. eins og það var lagt fram í fyrra svo að það verði tekið enn meira tillit til þessara alvarlegu vandamála sem birtast okkur höfuðborgarbúum í seinni tíð.